148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir hvatningu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés um að við reynum að halda dagskrá í dag til að koma í gegn brýnum málum svo vonandi lætur hæstv. fjármálaráðherra sjá sig fljótlega í húsi af því að við erum að fara að ræða hér áfram fjármálastefnu hans.

Að öðru. Á hverjum degi, í hverri viku, hverjum mánuði verða sýrlenskar konur og börn fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu starfsmanna mannúðarsamtaka sem koma til landsins vegna hjálparstarfa. Karlarnir starfa hjá Sameinuðu þjóðunum og fleiri alþjóðlegum stofnunum og þeir nýta sér neyð kvennanna með því að láta þær fá mat gegn kynlífi. Þetta á sér enn stað, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og þrátt fyrir að kolsvört skýrsla hafi verið gefin út af Sameinuðu þjóðunum um að þetta sé enn við lýði. Stofnanir Sameinuðu þjóðanna og aðrar hjálparstofnanir hafa lýst því yfir að umburðarlyndið í garð slíkra níðingsverka sé ekkert en samt viðgengst þetta enn. Er sagt að þessi misbeiting sé svo algeng að sumar sýrlenskar konur neiti að mæta í dreifingarmiðstöðvar því að gert sé ráð fyrir að með því hafi þær falboðið líkama sína fyrir mat handa börnum sínum.

Á alþjóðlegu kvennaþingi sem haldið var hér í lok síðasta árs var í einni málstofu fjallað um konur í stríði. Það var ótrúlega fróðlegt að heyra viðhorf kvenna hvaðanæva að úr heiminum þar sem þær tóku til máls og veltu fyrir sér hvers vegna Sameinuðu þjóðirnar fordæma ekki hástöfum þau ógeðslegu brot sem þarna eiga sér stað af hálfu þeirra fólks, þeirra starfsmanna.

Við erum friðarins þjóð og því hvet ég í pontu Alþingis íslensk stjórnvöld til að beita sér innan Sameinuðu þjóðanna fyrir því að þessar hryllilegu árásir gegn konum og börnum í stríði verði fordæmdar. Ég óska a.m.k. eftir því (Forseti hringir.) að íslensk stjórnvöld beiti sér í þessu.