149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Fréttaflutningur undangenginna daga minnir okkur svo ótvírætt á hversu langt við eigum enn til lands í jafnréttisumræðunni. Það sem maður verður auðvitað að segja sem karlmaður á þingi er að maður er eiginlega alveg ólýsanlega sorgmæddur yfir því að þessi umræða skuli hafa farið niður á þetta plan. Þetta undirstrikar það sem hefur verið svo mikilvægt stef í umræðunni á þingi, í #metoo og á rakarastofuráðstefnunni sem við stóðum fyrir í upphafi árs, í framlagi Íslands til HeForShe-átaks UN Women, einmitt um rakarastofuna, að karlar geri sig gildandi í jafnréttisumræðunni, að karlar standi upp í þessari umræðu og segi: Þetta getum við ekki látið líðast.

Svona orðræðu viljum við hvorki sjá líðast í stjórnmálunum né nokkurs staðar annars staðar. Við vitum auðvitað, ekki hvað síst einmitt í stjórnmálunum, að þetta er greinilega landlægt og þetta er ein af meginástæðum þess að konur endast að jafnaði mun skemur þar en karlar, þær mæta allt annarri og miklu vægðarlausari kvenfyrirlitningarumræðu á vettvangi stjórnmálanna. Þetta er ólíðandi og ég skora á alla karla á þingi að við tökum höndum saman um að segja: Nei. Hingað og ekki lengra. Þetta stoppar hér. Við getum ekki látið svona kvenfyrirlitningu, svona ótrúlegan — mann bara skortir orð til að lýsa þessu — líðast hér innan veggja Alþingis. Stopp, hingað og ekki lengra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)