150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta mál einkennist af því sem ég ætla að kalla yfirburðahyggju, þeirri hyggju að tilteknir hópar í samfélaginu eigi að hafa yfirburði yfir aðra hópa og sérstök forréttindi umfram aðra hópa í samfélaginu. Það er algengt en ekki algilt að slíkir hópar séu í meiri hluta. Þegar þessi yfirburðahyggja kemur upp í sambandi við kynþætti eru það t.d. yfirleitt einstaklingar úr fjölmennari hópnum sem vilja kúga einhvern úr fámennari hópnum og bera því þá einmitt við að þeir séu í meiri hluta og tala þá jafnan um sögulegar rætur og að eitthvað hafi verið á einhvern ákveðinn hátt í þúsund ár o.s.frv. Þetta þekkjum við því miður af mörgum harmsögum heimsins, frá Balkanskaga, Þýskalandi og víðar. Hér er ekki um að ræða yfirburðahyggju á grundvelli kynþáttar sem betur fer en hins vegar yfirburðahyggju á grundvelli trúarbragða, þ.e. á grundvelli þeirrar hugmyndar að fólk sem aðhyllist hina evangelísku lútersku þjóðtrú svokölluðu eigi að njóta sérstakra forréttinda umfram annað fólk. Þá er mjög stutt í að fólk komi upp í pontu og fari að klappa sjálfu sér á bakið, ef það aðhyllist þá trú, fyrir það að þessi tiltekna stofnun, þjóðkirkjan svokallaða, veiti þjónustu — eins og aðrar trúarstofnanir geri það ekki, eins og aðrar trúarstofnanir séu ekki opnar hverjum sem er og bjóði ekki hvern sem er velkominn, eins og ef hv. þingmenn gætu ekki farið ef þeir lenda í áföllum í lífinu í mosku og spurt fræðimenn þar ráða hvað varðar sálgæslu og því um líkt.

Ég bið hv. þingmenn að velta þessu fyrir sér. Ég hygg með því að líta yfir svæðið og hlusta á ræður þingmanna að hér séu ekkert sérstaklega margir sem fara í mosku, ekki að það komi mér neitt við eða neinum, en ég velti fyrir mér hversu mörgum hv. þingmönnum hugnaðist að leita til trúfélags eða lífsskoðunarfélags hvers hugmyndafræði þeir aðhylltust ekki.

Virðulegur forseti. Það er nóg fyrir mig. Ég aðhyllist einfaldlega ekki evangelíska lúterska trú og get þess vegna ekki fundið sáluhjálp hjá presti á sama hátt og einhver sem aðhyllist þá trú. Samt er ég ekkert að gera lítið úr því að trúað fólk leiti til presta. Ég segi bara að ekki aðhyllist allir þessa trú. (BN: Það skiptir engu máli.) Ég ætla að fara yfir orð hv. 5. þm. Reykv. s. á eftir, vonandi í andsvörum. Óháð því er hér í raun um tvennt að ræða, eins og hv. 3. þm. Suðurk., Birgir Þórarinsson, fór ágætlega yfir, annars vegar stjórnarskrárbundinn stuðning og vernd íslenska ríkisins við þjóðkirkjuna svokölluðu og hins vegar kirkjujarðasamkomulagið. Það mál sem við ræðum hér varðar kirkjujarðasamkomulagið. Ég er sammála hv. þingmanni og vonandi líka fyrrverandi formanni Lögmannafélagsins um að í raun sé hægt að breyta öðru án þess að breyta hinu. Ég sé ekki að neitt myndi breytast við kirkjujarðasamkomulagið í sjálfu sér við það að afnema 62. gr. stjórnarskrárinnar um þjóðkirkju. Ég get ekki séð það, af minni vissulega takmörkuðu lögfræðiþekkingu. Aftur á móti er þetta kirkjujarðasamkomulag allt saman einkenni fyrir þá stöðu sem trúmál hafa á Íslandi gagnvart ríkisvaldinu sérstaklega vegna þess að aldrei myndi neitt ríki gera samning eins og kirkjujarðasamkomulagið nema vegna þess að þingheimur almennt, meiri hlutinn, aðhylltist þvílíka helgislepju, ætla ég að segja, ekki trúrækni heldur helgislepju, gagnvart þeirri mannlegu stofnun sem um ræðir. Það var ekki farið í kirkjujarðasamkomulagið nema af þeirri ástæðu. Ég sé ekki fyrir mér að þingheimur myndi nokkurn tíma, eða ráðherrar, gera sambærilegan díl við stofnun eins og Siðmennt eða Vantrú. Geta hv. þingmenn nokkuð hugsað sér það eða einhverja mosku eða segjum bara skákfélag ungmenna á Akureyri, ef það er til, bara eitthvert félag? Ég sé ekki fyrir mér að ríkið myndi kaupa jarðir af þeim félögum fyrir bókstaflega óendanlega háa upphæð nema vegna þess að þessir sömu stjórnmálamenn eru haldnir sérstakri lotningu gagnvart þessari stofnun vegna þess að hún stendur fyrir þeirra trúarsannfæringu. Og það er rangt, virðulegi forseti, að láta slíkt ráða för þegar maður er að semja fyrir hönd allra skattgreiðenda. Það er rangt, það er siðferðislega rangt, þegar ríkið og ráðherrar taka sig til og ætla að semja um skattfé við einstakar stofnanir að standa þá ekki með skattborgurum heldur vera í liði með þeim sem er verið að semja við. Það er siðferðislega rangt, virðulegi forseti. Þetta er ekki lagatæknileg spurning, vil ég bara segja fyrir fram við hv. þm. 5. Reykv. s., og það er kominn tími til.

Ég vík þá aðeins að efni þessa frumvarps og viðbótarsamningsins sem það grundvallast á og er hluti af. Kirkjujarðasamkomulagið sjálft er nógu bölvanlegt eins og það lá fyrir 1997, en núna á að breyta fyrirkomulaginu. Sumar breytingarnar eru jákvæðar, t.d. að starfsmenn kirkjunnar verði ekki ríkisstarfsmenn heldur starfsmenn kirkjunnar. Mér finnst það allt í lagi en mér finnst það samt ekki vera aðalatriðið. Aðalatriðið finnst mér vera mismununin sem viðgengst á Íslandi gagnvart mismunandi trúarhópum, grundvölluð á einhverri sögulegri og menningarlegri arfleifð. Því er alltaf hent upp eins og afsökun fyrir svona löguðu. Það eru alls konar hlutir í okkar sögulegu og menningarlegu arfleifð og sú arfleifð er engin sérstök réttlæting fyrir því að hafa hlutina áfram eins og þeir eru. Forréttindi karla koma upp í hugann, karlmenn hafa verið með mikla yfirburði hérna í 1100 ár. Þýðir það að karlmenn eigi áfram að hafa þessa miklu yfirburði? Nei, virðulegi forseti, það væru fráleit rök.

Til að vekja smáóþægindi ætla ég að segja að yfirþyrmandi meiri hluti Íslendinga hefur verið hvítur síðustu 1100 ár. Þýðir það að hann eigi alltaf að vera hvítur? (Gripið fram í: Já.) Auðvitað ekki, virðulegi forseti. Menn sjá auðveldlega hversu fráleitur slíkur málflutningur væri um leið og hann er færður yfir á eitthvað annað en þessa tilteknu stofnun á Íslandi í dag, þjóðkirkjuna. Ég held að menn sjái það alveg. Þetta er ekki rökrétt á neinn hátt. Í þessu felst enginn áfellisdómur yfir kristinni trú, hvort sem hún er evangelísk eða lútersk eða hvort tveggja. Þetta snýst ekki um það, þetta snýst um jafnræði fyrir lögum. Þetta snýst um að borgarar landsins njóti jafnræðis og að þegar ríkisstjórnin sé að semja við stofnanir úti í bæ standi hún með öllum borgurum landsins, ekki bara þeim sem aðhyllast vinsælustu trúarbrögðin hverju sinni.

Er svo ekki svolítið skrýtið að það sé sérstakur ríkisstuðningur, sérstök ríkisvernd, við vinsælasta trúfélagið sem er yfirþyrmandi fjölmennast og fær yfirþyrmandi mest af sóknargjöldum? Er það ekki svolítið skrýtið, virðulegi forseti? Venjan er frekar sú að það ætti að styðja við lítilmagnann, minni félög sem þurfa líka og vilja bjóða upp á þjónustu, sáluhjálp og fleira í þeim dúr og gera alveg sömu hluti og þjóðkirkjan gerir, vilja það í það minnsta. Ef margir söfnuðir gera það ekki fullyrði ég að það sé einmitt vegna þess að þá skortir stuðninginn sem þjóðkirkjan fær á grundvelli stjórnarskrárákvæðisins, 62. gr., og kirkjujarðasamkomulagsins.

Annað sem kemur með þessum viðbótarsamningi er hins vegar ekki jafn jákvætt og breytingin með starfsmennina sem er í versta falli meinlaust og í skásta falli bara fínt. Það á að hætta að fara eftir skráningarfjölda í kirkjuna til að ákvarða þann stuðning sem um ræðir í kirkjujarðasamkomulaginu. Það vill svo skemmtilega til að það er að fækka í þjóðkirkjunni sem er alveg eðlileg þróun ef litið er á það að samfélagið er að verða fjölbreyttara, ekki bara vegna þess að útlendingar koma til landsins heldur hefur samfélagið almennt miklu meira aðgengi að alls konar tegundum af upplýsingum og þá er alveg eðlilegt að það hræri svolítið í þeirri viðhorfasúpu sem einkennir mannlegt samfélag. Það er eðlileg þróun. Það þýðir hins vegar að samkvæmt kirkjujarðasamkomulaginu óbreyttu frá 1997 myndi sá stuðningur sem um ræðir dvína. Ég man ekki töluna nákvæmlega en mig minnir að þegar skráningum hefur fækkað um 5.000 hverju sinni hafi stuðningurinn minnkað en með viðbótarsamkomulaginu er þessi tenging afnumin. Það er afskaplega heppileg tímasetning fyrir þjóðkirkjuna akkúrat núna.

Þetta er eitt af því, virðulegi forseti, sem mér finnst bara ekki heiðarlegt. Mér finnst ekki ærlegt að gera samning sem er sérstaklega gerður til þess að forða þessu trúfélagi frá þeirri þjóðfélagsþróun sem á sér stað á sama tíma og það er alltaf rökstutt að þjóðkirkjan njóti svo mikils stuðnings í samfélaginu að þess vegna sé eðlilegt að styðja hana. Hvað gerist þegar minni hluti þjóðarinnar verður í þjóðkirkjunni? Hvað þá, virðulegi forseti? Þá verður þetta samkomulag enn í gildi og það er það sem er svo slæmt við það. Það er ekkert að því að ríkið borgi sanngjarnt verð fyrir þær eignir sem það kaupir. Það er eðlilegt. Þegar maður kaupir land eða fasteign eru venjulega afborganir og einhvern tímann er búið að fullnusta samninginn. Einhvern tímann á maður hlutinn og þarf ekki að greiða meira af honum. Þetta er eini samningurinn sem ég veit til nokkurn tímann, utan kannski Biblíunnar, þar sem það er ekki. Ég leyfi hv. 3. þm. Suðurk. að leiðrétta mig með það ef hann svo kýs og getur.

Aðalatriðið í þessu er fyrir mér ekki það að þessi tiltekna stofnun aðhyllist tiltekna trúarsannfæringu sem ég sjálfur aðhyllist ekki persónulega, ekki að það komi neinum við. Það er ekki málið. Málið er að mér finnst ekki sanngjarnt, ekki rétt og ekki heldur í neinu samræmi við 65. gr. stjórnarskrárinnar eða anda hennar í það minnsta að mismuna fólki og þeirri þjónustu sem það fær á grundvelli þess hvaða trúarsannfæringar það er. Mér finnst ómálefnalegt, rangt og óheiðarlegt að setja það í einhvern annan búning en að þetta sé nákvæmlega það. Þarna finnur meiri hlutinn afsökun fyrir því að skammta sjálfum sér meiri gæði en minni hlutinn fær fyrir það eitt að vera minni hlutinn vegna þess að þarna eru einhverjar sögulegar rætur. Ég ætla ekki að rífast yfir því, það er alveg rétt að kristin trú á sér sögulegar rætur og er stór hluti af íslenskri sögu og menningu, er söguleg í það minnsta eins og ýmislegt annað, þar á meðal blóðböð og hvaðeina. Það þýðir samt ekki að við eigum að halda úti sérstakri stofnun og styrkja hana og vernda með skattfé.

Ég verð að segja að lokum, virðulegi forseti, að það er í raun bara eitt trúfélag á Íslandi sem ég gæti hugsað mér að fara í alvarlega umræðu um hvort væri málefnalegt að styðja umfram önnur og það er Ásatrúarfélagið. Ég er ekki í því, hef aldrei verið það og aðhyllist það ekki, a.m.k. ekki enn þá. Þar er um að ræða félag sem snýst virkilega um að viðhalda menningar- og sagnfræðilegri arfleifð sem er í verulegum minni hluta og er ekkert víst að lifi samfélagsþróunina af ef við gleymum of mikið sögu okkar og fortíð sem vonandi gerist ekki. Evangelísk lútersk trúarsannfæring er hins vegar mjög aðgengileg öllum, ekkert mál að finna allt um hana og iðka hana og rækta án þess að hafa nokkurn ríkisstuðning. Það er ekkert mál. Ég veit ekki alveg hvernig það er með Ásatrúarfélagið en þar er um að ræða allt aðra stöðu. Mér þætti það eðlilegra, á sama hátt og mér finnst t.d. eðlilegt að hafa sérstakan stuðning og vernd fyrir íslenska tungu, ekki vegna þess að hún sé í meiri hluta heldur þvert á móti vegna þess að hún er í minni hluta í heiminum. Hún getur alveg, þrátt fyrir jákvæð teikn upp á síðkastið, á örfáum síðustu árum, dvínað og getur dáið út á 100–200 árum ef við pössum okkur ekki. Sem betur fer virðumst við vera að passa okkur þar þannig að það lítur ekki út fyrir að verða, þökk sé einmitt ríkisstuðningi og tækniframþróun. Það að styðja stærsta trúarsöfnuðinn og gera sérstaklega vel við hann með skattfé, fólk sem aðhyllist trúarsannfæringu stærsta trúarsafnaðarins, er ómálefnalegt. Það er óþarfi í allra skásta falli. Það er rangt og við eigum ekki að gera það. Við eigum ekki að gera það frekar en t.d. Bandaríkin, Kanada, Mexíkó, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Spánn, Portúgal eða Finnland. Það þarf ekki, virðulegi forseti. Aukinheldur er það ekki málefnalegt.

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta þetta duga í bili. Sjáum til hvort andsvör hv. þingmanna knýja fram aðra ræðu. Það eru allar líkur á því enda er vissulega margt sem hér má ræða, (Gripið fram í.) ekki bara um frumvarpið sjálft heldur líka (Gripið fram í.) um sögu þessa samkomulags og alls þess. Ég læt hér við sitja og býð hv. þingmönnum að rífast við mig aðeins meira um þetta.