150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[16:07]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Umræðan um þetta frumvarp er út og suður og er eiginlega alveg óskiljanleg. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég fékk skilaboð í símann minn áðan frá ágætum þingmanni um að ef maður þyrfti einhvern tímann á drottni að halda væri það í þessari umræðu. [Hlátur í þingsal.] Menn eru að grauta saman kirkjujarðasamkomulaginu og ræða eitthvað um hvað sé eðlilegt gjald. Þetta er bara samningur (Gripið fram í.) — örugglega lélegur (HHG: Það er rétt.) — já, en það skiptir ekki máli. Það sem hér er um að ræða er að ríkið fær ákveðnar eignir en ríkið er líka, eins og því ber að gera, að styðja og vernda þjóðkirkjuna. Það er ekki bara í lögum, það er í stjórnarskrá. Þessi leið er farin. Menn geta gagnrýnt hana í sjálfu sér en það er ekkert nýtt, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, að ríkisvaldið styðji eitthvað sem hefur á móti einhverjar skyldur umfram aðra. Ríkið gerir svona samninga á hverju ári. Sumum er maður sammála, sumum ekki. Ríki ákveður að láta skattgreiðendur borga í ríkisljósvakamiðil — 5 milljarða. Hvers vegna? Menn rökstyðja það með menningarlegu hlutverki og að sá miðill hafi skyldur umfram aðra fjölmiðla. Þetta er ekkert flóknara en það. Einhverjir halda því fram að það sé siðferðilega rangt og að stuðningur sumra þingmanna varði trúarsannfæringu þeirra. Ég get upplýst hv. þingmann um að ég hef bara enga trú á þessari sannfæringu. Ég styð engu að síður kristna söfnuði, ég styð þjóðkirkjuna vegna þess að hún er að gera gagn. Hún sinnir ákveðnum, nauðsynlegum verkefnum (Forseti hringir.) fyrir utan það að hún er mjög menningarleg og tengd þjóðinni og búin að vera það í 1000 ár.