151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:46]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu um dreifingu bóluefnis á nýju ári. Við í hv. velferðarnefnd höfum kallað eftir upplýsingum og auðvitað, eins og allur almenningur, fylgst með umfjöllun í fjölmiðlum um skammta og hvernig framkvæmdin er. Þar er hægt að hrósa stjórnvöldum og fyrirsvarsmönnum heilsugæslu t.d., en Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, kom brattur fram á völlinn og sagði bólusetningu allra sem vildu ekki verða mikið vandamál. Sagði hann skipulagið þannig að ef bólusett yrði í tíu klukkustundir á dag væri hægt að bólusetja 10.000 manns í einum skóla á hverjum degi.

Ég vil fagna þessu afdráttarleysi og hrósa heilbrigðisstarfsfólki. Gleðifregnir bárust svo á dögunum um að við værum búin að tryggja okkur 170.000 skammta af bóluefni, en vert er að benda á að hvern einstakling þarf að bólusetja tvisvar. Því urðu það óneitanlega nokkur vonbrigði í gær að heyra að skammtarnir sem berast fyrsta fallið yrðu bara rétt um 10.000. Og nú í þessari umræðu, kom fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra að hingað muni einungis berast 3.000 skammtar á viku frá lok desember og út mars. (Heilbrrh.: Fyrst 10.000 og svo 3.000.)— Fyrst 10.000 og svo 3.000 skammtar á viku frá lok desember og út mars.

Samkvæmt yfirlýsingu heilbrigðisráðherra fáum við bóluefnið í gegnum Evrópusambandið. Hlýt ég því að spyrja hvernig hagsmunagæslu okkar sé háttað innan Evrópusambandsins þegar kemur að þessu bóluefni. Hvers vegna berast svona misvísandi skilaboð um framboð bóluefnis hér á landi? Er þetta í einhverju samræmi við það sem gerist í nágrannaríkjum okkar? En samkvæmt því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra þá höfum við leitað til Svía til að aðstoða okkur við hagsmunagæslu í þessu máli.