151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég er alveg sammála því sem kom fram en maður sér fréttir af Keflavíkurflugvelli þar sem flestallir virðast fara varlega og fara eftir sóttvarnareglum en því miður eru alltaf einhverjir sem brjóta reglurnar. Við vitum það af reynslunni.

En ég fékk ekki svar við því hvort fólk gæti fengið val um hvaða bóluefni það fengi, hvort það gæti neitað því að fá fyrsta bóluefnið og beðið eftir næsta.

Ég las það nýlega, og það sló mig svolítið, að lyfjainnflytjendur væru eitthvað að kvarta undan því að ráðuneytið væri með þetta allt saman og að þeir væru skildir eftir. Þarna væri einhver milliliður og þar af leiðandi væri hætta á því að við fengjum lyfin seinna og það væri að valda þessum töfum. Ég vil þá bara fá svar við: Er það rétt?