151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[16:08]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég get fallist á það að eftir því sem þakið er hækkað muni það hafa þau áhrif sem hv. þingmaður benti á. Ég vil þó benda á að um mitt ár 2016 var þakið í 370.000 kr. Á árinu 2020, í tíð þessarar ríkisstjórnar, hefur það verið hækkað upp í 600.000 kr. sem er 230.000 kr. hækkun og er hluti af þeim 10 milljarða aðgerðum á ársgrunni sem núverandi ríkisstjórn náði samkomulagi um að ráðast í. Eigum við að gera meira þegar fram líða stundir? Já, við eigum að gera það. Því náum við hins vegar ekki í þessari lotu vegna þess að sú 10 milljarða aðgerð á ársgrunni sem við erum að ráðast í miðast við að hækka þakið í 600.000 og lengja orlofið um þrjá mánuði. Ég er stoltur af því. Það kann vel að vera að við hv. þingmaður getum seinna meir náð samstöðu um að stíga enn frekari skref í þessa veru.