151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta er nú í sjálfu sér ágætlega skýrt á bls. 70 í fjáraukalagafrumvarpinu og dómsmálaráðuneytið kom á fund okkar og fór yfir þessa tillögu. Auðvitað eru nokkur atriði þarna inni, það eru m.a. breytingar vegna endurútreiknings á launaforsendum vegna kjarasamninga, þarna er Covid-kostnaður innifalinn, húsaleigukostnaður og leigukostnaður sem hefur orðið hærri. Við þekkjum að þurft hefur að koma fólki í sóttkví, það hefur kannski ekki farið í burtu eins og gert var ráð fyrir. Þessu hefur bara fylgt umframkostnaður miðað við það sem gert var ráð fyrir. Auk þess sem, þrátt fyrir allt, eins og við þekkjum, gert er ráð fyrir að fjöldinn verði ekki undir 90% af þeim sem sóttu um vernd hér í fyrra, að þegar upp verður staðið verði fjöldinn á árinu sambærilegur.

Ég sé að Miðflokkurinn ætlar að flytja hér tillögu. Ítarlega er farið yfir akkúrat þennan hlut í áliti hv. þingmanns um þetta. Ég er alveg sammála því og held að ástæða þess að við höfum sett aukið fjármagn í þennan málaflokk sé m.a. til að einfalda og hraða málsmeðferð. Það hefur alltaf verið markmiðið frá því að flóttamannastraumurinn fór að verða ríkur. Það vill enginn þurfa að bíða lengi eftir því að fá niðurstöðu í sín mál.

En ég held að ég get ekki skýrt þetta neitt nánar fyrir hv. þingmanni. Mér finnst þetta vera ákaflega skýrt. Það er auðvitað alls konar kostnaður sem hefur fallið til vegna Covid. Svo er hér nefndur leigukostnaður og eins og við þekkjum er húsnæðiskostnaður á höfuðborgarsvæðinu ekki sérstaklega lágur.