151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki alls kostar sammála þessari skýringu hv. þingmanns. Hún nefnir Covid-kostnaðinn. Hann liggur fyrir, hann er 19 milljónir. En það eru 400 milljónir sem er verið að óska eftir aukalega og fjárveitingin á þessu ári var 3,2 milljarðar. Sú fjárveiting ætti svo sannarlega að hafa dugað. Og að bera það fyrir sig að húsaleiga sé að hækka og annað slíkt, það á bara að vera inni í þessari fjárveitingu. Maður getur ekki séð að húsaleiga sé að hækka hér um rúmar 300 milljónir.

Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst þetta svar frekar rýrt. Það er alveg ljóst að þessi málaflokkur er bara í ólestri. Það er ekki hægt að vera með málaflokk upp á 3,2 milljarða og koma síðan í lok árs og biðja um 400 milljónir í viðbót þegar umsóknum hefur fækkað. Þeim hefur fækkað. Það er bara ósköp einfalt. Það er eitthvað að í þessu kerfi sem þarf að fara nánar yfir. Við verðum í þessu árferði, í þessari skuldastöðu ríkissjóðs að leggjast yfir hverja einustu krónu og hvað verið er að greiða fyrir. Þetta er það há upphæð að hún þarfnast bara sérstakrar skoðunar. Málaflokkurinn hefur náttúrlega vaxið ár frá ári en núna hefur dregið úr umsóknum og þá er bara komið hingað og óskað eftir 400 milljónum í viðbót.

Það þarf að fara nákvæmlega yfir þetta mál. Við erum hér í fjárlaganefnd til að hafa með því eftirlit hvernig fjármunum ríkisins er ráðstafað. Þetta er upphæð sem eru afar litlar skýringar fyrir. Það eru einhverjar 19 milljónir í Covid, það er aukin húsaleiga. En hún er aldrei neinar 300 milljónir, frú forseti. Það verður bara að fara betur yfir þetta mál.