151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 1. minni hluta og tveimur breytingartillögum sem ég mun fara nánar í á eftir. Fjáraukalög eru nú lögð fram í fimmta sinn á þessu ári, eins og komið hefur fram, og er það einsdæmi. Þau bera þess merki að þjóðarbúið hefur orðið fyrir gríðarlegri ágjöf vegna veirufaraldursins og enn sér ekki fyrir endann á því. Eins og kunnugt er er fjáraukalögum ekki ætlað að standa straum af útgjöldum til nýrra verkefna, aukinnar starfsemi eða rekstrarhalla ríkisaðila eða af fjárlagaliðum ríkisins. Útgjöldin verða að vera óvænt eða ófyrirséð. Það er meginstefið þegar fjáraukalög eru lögð fram. Samkvæmt lögum um opinber fjármál ber að taka á tillögum um auknar fjárheimildir á fjárlögum næsta árs. Ég hef áður bent á þetta í ræðu og riti. Í frumvarpi þessu má sjá að ríkisstjórnin heldur áfram á þeirri braut að fjármagna verkefni í fjáraukalögum sem eiga ekki heima þar samkvæmt lögum um opinber fjármál.

Í lögunum kemur fram að markmiðið er að áætlanir fjárlaga séu það nákvæmar að ekki þurfi að grípa til fjáraukalaga. Árið í ár er eins og við vitum öll mjög óvenjulegt og fordæmalaust. Markmið laganna hafa því ekki náð fram að ganga. Vonandi að ekki þurfi að grípa til fleiri fjáraukalaga á komandi ári. Það er mjög mikilvægt að fjáraukalög verði notuð eins og lögin kveða á um þannig að í þeim séu einungis fjárveitingar vegna óvæntra og ófyrirséðra atburða sem ekki er hægt að bregðast við með öðrum hætti, t.d. með aðhaldi eða ráðstöfun varasjóða. Ég legg áherslu á að fyrrgreind markmið laga um fjáraukalög verði virt í framtíðinni. Það er hluti af ráðdeildarsemi í ríkisfjármálum.

Fjáraukalög þessi koma til með að auka skuldir ríkissjóðs verulega og eru fjárheimildir auknar við 2. umr. um 5 milljarða. Þar af eru 1,8 milljarðar vegna breyttrar framsetningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Samtals nema ný og aukin útgjaldatilefni í frumvarpinu 65,1 milljarði kr. Í frumvarpinu eru þau skilgreind þannig að mótvægisráðstafanir vegna veirufaraldursins nemi 28,7 milljörðum kr., aukin útgjöld vegna veirufaraldursins eru 40 milljarðar og önnur útgjöld nema 9,9 milljörðum. Endurmat á fyrri mótvægisráðstöfunum leiði til lækkunar um 13,6 milljarða kr. Tekjufallsstyrkir til rekstraraðila vegna veirufaraldursins nema 23,3 milljörðum og útgjöld vegna atvinnulífsins eru 29,5 milljarðar, sem er veruleg upphæð og er til mikils að vinna að við náum að vinna á atvinnuleysinu sem er þjóðhagslegt böl.

Í þessu sambandi er rétt að huga að spám um hagvöxt og atvinnuleysi. Nýjasta spáin er spá Seðlabankans frá 1. nóvember í vetur. Hún er mikilvæg, bæði hvað varðar atvinnuleysi og hagvöxt, og hún er dekkri en spá Hagstofunnar frá því í október. Það er ljóst að svo getur farið að við sjáum hærri tölur hvað varðar atvinnuleysið. Meginþorri þeirra fjárheimilda sem eru í þessu frumvarpi er til kominn vegna aukins atvinnuleysis eins og áður segir. Það er mikilvægt að hafa þessar spár að leiðarljósi. Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að atvinnuleysi verði meira en 8% árið 2021. Það hefur veruleg áhrif á tekjuhluta ríkissjóðs og síðan útgjaldahliðina vegna greiðslu atvinnuleysisbóta.

Benda má á að útgjöld vegna reiknaðs vaxtar lífeyrisskuldbindinga frá fjárlögum fyrir árið 2020 nema 5,5 milljörðum kr. og þar sem þetta er ekki í fyrsta skipti sem stór frávik í þeim útgjaldalið koma til er eðlilegt að kannað verði hvort ekki megi áætla þessi útgjöld af meiri nákvæmni en hingað til svo að ekki þurfi að koma til aukinna fjárútláta í fjáraukalögum vegna þessa.

Í frumvarpinu kemur fram að hækkun vaxtagjalda vegna veirufaraldursins nemi 1,5 milljörðum kr. Ljóst er að fram undan er mikil hækkun vaxtagjalda ríkissjóðs vegna mikillar aukningar á skuldum. Þá má gera ráð fyrir því að lántökuvextir hækki í kjölfar aukinnar skuldsetningar og auki enn frekar á hana. Þetta er að sjálfsögðu áhyggjuefni, frú forseti. Vextir eru lægri í helstu samkeppnislöndum okkar og því þarf mun hærra hlutfall ríkistekna til að standa undir vaxtagjöldum hér á landi en erlendis. Það veldur því að annaðhvort þurfa skattar á Íslandi að vera hærri en í samanburðarlöndum okkar eða ríkissjóður að verja lægri fjárhæðum til samneyslunnar. Þetta er áhyggjuefni þegar litið er til framtíðar.

Það er mjög mikilvægt að ríkissjóður fari eins varlega og hægt er í skuldsetningu og það hefur komið fram í framsöguræðum, m.a. hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni, varaformanni fjárlaganefndar, að við séum komin á ystu nöf hvað varðar skuldsetninguna. Gæta þarf þess að þjóðarbúið verði ekki sett í þá stöðu að hér þurfi að hækka skatta til að ná aftur jöfnuði í ríkisfjármálunum og að ekki þurfi að koma til stórkostlegs niðurskurðar til að ná nauðsynlegri sjálfbærni. Slíkt myndi bitna verulega á lífskjörum almennings og rekstrarhæfi fyrirtækja hér á landi.

Einn útgjaldaliður í frumvarpinu vekur nokkra undrun, eins og ég nefndi hér í andsvari, og er það tillaga um 412,8 millj. kr. viðbótarframlag til að mæta kostnaði vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Einungis 19,1 millj. kr. er vegna veirufaraldursins. Verði frumvarpið samþykkt nemur kostnaðurinn við málaflokkinn rúmum 4,4 milljörðum kr. árið 2020. Á þremur árum, eða frá árinu 2018, hefur kostnaðurinn numið um 12 milljörðum kr. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi.

Fjárbeiðnin er sérstök í ljósi þess að umsóknum um alþjóðlega vernd hefur fækkað á þessu ári. Flugsamgöngur hafa legið niðri að stórum hluta í marga mánuði vegna veirufaraldursins. Eigi að síður er óskað eftir hækkun til málaflokksins um rúmar 400 millj. kr. Ég endurtek að einungis 19 milljónir eru vegna veirufaraldursins.

Málefni flóttamanna og annarra innflytjenda eru með stærstu málum sem þjóðir heims standa frammi fyrir. Innflytjendamál á Íslandi einkennast af vanmætti stjórnsýslunnar til að ráða við afgreiðslu umsókna innan viðunandi tímamarka. Hefur þetta leitt af sér sívaxandi útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins sem fylgt hafa lögmáli veldisvaxtar. Hælisleitendur bíða í sumum tilvikum árum saman eftir því að fá niðurstöðu. Með því er mikið lagt á fólk sem hingað leitar. Um leið ýtir þessi staðreynd undir tilhæfulausar umsóknir. Slíkum umsóknum er sérstaklega beint að ríkjum þar sem frestunarmöguleikar eru mestir. Úr verður skaðleg keðjuverkun, ekki síst fyrir þá sem þurfa mest á hjálp að halda.

Hælisumsóknum hefur fjölgað hratt á Íslandi undanfarin ár á sama tíma og þeim hefur fækkað í mörgum nágrannalöndum. Nú er svo komið að hælisumsóknir eru hlutfallslega flestar á Íslandi af öllum Norðurlandaþjóðum. Í fyrra voru slíkar umsóknir fimmfalt fleiri á Íslandi miðað við íbúafjölda en í Danmörku og Noregi.

Íslensk stjórnvöld verða að ná stjórn á aðgerðum landsins í flóttamanna- og innflytjendamálum. Ella heldur áfram keðjuverkun sem 350.000 manna ríki mun ekki ráða við. Sífellt fleiri munu fara af stað með óraunhæfar væntingar og í mörgum tilvikum borga mönnum af misjöfnu sauðahúsi, sem gera sér flutninga fólks að atvinnu, fyrir að koma sér áleiðis. Keðjuverkunin heldur svo áfram.

Löggjöf um málaflokkinn er haldin alvarlegum ágöllum. Hún ýtir undir þessa þróun, tekur lítið tillit til raunveruleikans og er ekki til þess fallin að beina aðstoðinni til þeirra sem þurfa mest á henni að halda. En það þarf líka að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda og hafa virkað. Dyflinnarreglugerðin var ekki sett að ástæðulausu. Samkvæmt henni á að afgreiða hælisumsóknir í því Evrópulandi sem umsækjandinn kemur fyrst til. Eftir að íslensk stjórnvöld fóru að víkja frá henni varð landið fyrst að áfangastað þeirra sem ekki eiga tilkall til alþjóðlegrar verndar. Því skyldu menn fylgja reglunum ef Ísland auglýsir sig sem land sem lítur fram hjá þeim?

Brýnt er að einfalda og hraða málsmeðferð umsókna svo að auka megi skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma í málaflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft hælisleitendamálin á sinni könnu um árabil. Hann sýnist skorta nauðsynlega festu og hefur ekki reynst fær um að taka á vandanum. Stjórnsýslan ræður ekki við að afgreiða umsóknir innan viðunandi frests og beinn kostnaður við framfærslu hælisleitenda eykst hratt. Í ár er þessi kostnaður skattgreiðenda 4,4 milljarðar kr. og fer ört hækkandi. Þögn ríkir um óbeinan kostnað. Á fundi fjárlaganefndar með fulltrúum dómsmálaráðuneytisins í tengslum við vinnu að frumvarpinu kom fram að Ísland hefur veikustu löggjöfina af öllum löndum Evrópu þegar kemur að málefnum hælisleitenda og veitir þeim bestu þjónustuna. Það er umhugsunarefni að nú þegar landið hefur nánast verið lokað mánuðum saman vegna veirufaraldursins hefur fækkun á umsóknum um alþjóðlega vernd verið nánast engin. Á sama tíma hefur fækkunin verið allt að 70% í nágrannalöndunum. Hv. þingmaður og framsögumaður þessa frumvarps, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sagði einmitt áðan að fjöldinn yrði sennilega u.þ.b. 90% af því sem hann var í fyrra. Umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi eru nú orðnar á pari við stórar þjóðir eins og Svíþjóð. Allir sjá að þetta gengur ekki til lengdar vegna stöðugt aukinna útgjalda til málaflokksins og fámennis þjóðarinnar.

Samkvæmt tölum flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) er fyrir kostnað af hverjum hælisleitanda sem kemur til Vesturlanda hægt að hjálpa a.m.k. 10–12 manns í heimalandi. Okkur ber að aðstoða nauðstadda eftir föngum að teknu tilliti til fámennis þjóðarinnar. Koma ber í veg fyrir að móttökukerfi hælisleitenda sé misnotað með röngum upplýsingum og tilhæfulausum umsóknum. Það bitnar á þeim sem við þurfum svo sannarlega að hjálpa. Ísland hefur ekki farið að fordæmi Danmerkur og Noregs og auglýst strangt regluverk í útlendingamálum vegna þess að á Íslandi eru útlendingamálin í ólestri, m.a. vegna stefnuleysis, ófullnægjandi stjórnsýslu og lagaþrætna á kostnað skattgreiðenda. Á vettvangi stjórnmálanna dugir ekki að hlaupast undan merkjum réttarríkisins af ótta við háværan minni hluta sem gjarnan heyrist í ef allir fá ekki hæli hér. Miðflokkurinn hefur þegar lagt fram þingsályktunartillögu þar sem Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að flytja frumvarp um breytingu á útlendingalögum sem hafa að markmiði að hemja útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins og auka skilvirkni í málsmeðferð. Hún gengur út á það að frumvarp verði lagt fram eigi síðar en 1. mars 2021 svo að lögfesta megi nauðsynlegar breytingar fyrir þinglok. Áhersla verði lögð á þau markmið að tryggja að ákvörðunartími um hvort umsókn hælisleitenda fái efnislega meðferð verði að hámarki 48 klukkustundir og að niðurstaða efnislegrar málsmeðferðar liggi fyrir innan sex mánaða.

Ljóst er að umsækjendur um alþjóðlega vernd eru færri á þessu ári, eins og ég nefndi, en árin á undan og má rekja það til veirufaraldursins. Fækkunin er mun minni hér á landi sem sýnir best að málaflokkurinn er í ólestri. Það skýtur skökku við að setja aukið fjármagn í málaflokkinn í ljósi þess að umsækjendum hefur fækkað, eins og ég nefndi í andsvari.

Frú forseti. Það þarf ráðdeildarsemi í fjárveitingum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, ekki síst þegar sett hefur verið Íslandsmet í hallarekstri ríkissjóðs og Miðflokkurinn flytur hér breytingartillögu við þetta frumvarp um að tillaga um viðbótarframlag upp á 418,8 millj. kr. til málaflokksins komi ekki til framkvæmda. Það á sér sínar eðlilegu skýringar, vegna þess að umsækjendum hefur fækkað. Þeir voru 618 núna 1. desember en 800 á síðasta ári. Það er fækkun. Ég minni á að fyrir þessa upphæð, 419 millj. kr., má hjálpa 1.100 flóttamönnum í eitt ár á þeirra heimaslóðum erlendis. 1.100 flóttamönnum. Árið 2018 komu hingað 800 hælisleitendur og var kostnaðurinn rúmir 3,5 milljarðar. Árið 2019 voru þeir 867 og kostnaðurinn rétt tæpir 3,5 milljarðar. Á þessu ári, þann 1. desember, hafa komið hingað 618 hælisleitendur og kostnaðurinn er um 2,5 milljarðar. Fjárveitingin er hins vegar 3,2 milljarðar á þessu ári í þennan málaflokk þannig að undir öllum eðlilegum kringumstæðum á að vera afgangur af fjárheimildum til þessa málaflokks en svo er ekki. Hér er beðið um 400 millj. kr. til viðbótar og það þarfnast skýringa.

Frú forseti. Ég ætla að víkja aðeins að kafla í nefndaráliti mínu sem ber yfirskriftina Málefni sem eiga ekki heima í fjáraukalögum. Eins og ég greindi frá í upphafi má sjá í frumvarpinu að ríkisstjórnin heldur áfram á þeirri braut að fjármagna verkefni í fjáraukalögum sem eiga ekki heima þar, samanber lög um opinber fjármál.

Ef ég minnist hér á nokkur þeirra þá er ljóst að það skortir gagnsæi á ýmsum sviðum hvað þetta varðar. Það vantar að gera grein fyrir einstökum málum með miklu betri og markvissari hætti. Gerð er tillaga um fjárveitingu upp á 20 millj. kr. til forsætisráðuneytisins sökum kostnaðar vegna veirufaraldursins. Engin grein er hins vegar gerð fyrir því í hverju þessi kostnaður felst.

Gerð er tillaga um 29 millj. kr. hækkun fjárheimilda til utanríkisráðuneytisins sakir ráðningar starfsmanns vegna formennsku í Evrópuráðinu 2022–2023 og síðan annarra sérverkefna sem tengjast því. Þetta er klassísk fjárbeiðni sem á heima í fjárlagafrumvarpinu en ekki í frumvarpi til fjáraukalaga. Það er ekkert óvænt eða ófyrirséð í þessum útgjöldum. Menn vissu nákvæmlega hvenær formennskan kæmi í hlut Íslands. Þeir höfðu nægan tíma til þess að óska eftir fjárheimildum í fjárlögum.

Í frumvarpinu er heimild til að kaupa eignir. Húsnæði í Mývatnssveit, nánar tiltekið hótel, er þar sérstaklega nefnt, ætlað Vatnajökulsþjóðgarði, og þess getið að viðræður um kaupin séu í gangi. Ekki verður séð að þetta sé fjáraukamál. Það er ekkert ófyrirséð eða óvænt við þetta mál. Þetta eru fasteignaviðskipti. Þetta er liður sem á að vera í fjárlögum.

Við höfum margoft, á hverju einasta ári, tekið þá umræðu á Alþingi að verið sé að lauma inn í fjáraukalagafrumvörp málum, fjárheimildum og útgjöldum, sem eiga ekki heima þar en það virðist aldrei vera gerður nokkur skapaður hlutur í því að uppræta þennan ósið sem hann er í raun og veru.

Í frumvarpinu er gerð tillaga um 260 millj. kr. hækkun á greiðsluheimild til að mæta greiðsluhalla vegna uppgjörs við stofnanir. Þessa beiðni þarf að skýra betur því að greiðsluhallinn á, samkvæmt lögum um opinber fjármál, að flytjast yfir á næsta ár. Ef þetta er ekki Covid-mál á ekki að setja þetta fram á þennan hátt.

Frú forseti. Ég mæli hér líka fyrir síðari breytingartillögunni en hún lýtur að Ríkisútvarpinu. Meiri hlutinn er með breytingartillögu um að bæta við 50 millj. kr. í Ríkisútvarpið sem er ákaflega sérstakt vegna þess að þessi stofnun fær u.þ.b. 5.000 milljónir árlega frá skattgreiðendum. Það virðist ekki duga til og hún þarf líka 2.000 millj. kr. til viðbótar á auglýsingamarkaði og tekur þá frá einkareknum fjölmiðlum. Ekki nóg með það heldur sækir hún líka pening bakdyramegin úr ríkissjóði og fær endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar hér og svo á að fara að bæta við 50 milljónum í viðbót. Ég held að þetta sé bara að verða ágætt (Gripið fram í: Já, ég er sammála.) í þessa stofnun okkar allra landsmanna. En Miðflokkurinn leggur til breytingartillögu um að þessi hækkun upp á 50 millj. kr. komi ekki til framkvæmda.

Að lokum, frú forseti: Í lögum um opinber fjármál kemur fram að fjáraukalög eigi nánast að heyra sögunni til. Þó að grípa hafi þurft til þeirra fimm sinnum á þessu ári, sem er einsdæmi, verður það að skoðast í ljósi hins mikla efnahagsáfalls sem dunið hefur yfir þjóðina vegna veirufaraldursins. En það er von mín, og það eru mín lokaorð, að það takist sem fyrst að ná því markmiði laganna að fjáraukalög heyri nánast sögunni til þar sem varasjóðir eiga að taka á óvæntum rekstrarfrávikum.