152. löggjafarþing — 42. fundur,  24. feb. 2022.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

74. mál
[14:16]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegi forseti. Hér er lagt fram frumvarp um breytingu á stuðningi til kaupa á fyrstu íbúð. Þannig er lagt til að rétturinn til skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð verði ekki einskorðaður við fyrstu kaup, heldur verði einstaklingum sem ekki hafa átt íbúð undangengin þrjú ár einnig heimilt að nýta sér þetta úrræði. Jafnframt er lagt til að svokölluð hlutdeildarlán standi þeim til boða sem ekki hafa átt íbúð undangengin þrjú ár í stað fimm ára eins og nú gildir.

Þessi tillaga að lagabreytingu er viðleitni til að koma til móts við alla þá sem fastir hafa verið á leigumarkaði svo árum skiptir, kannski vegna tímabundinna, persónulegra erfiðleika eða vegna þess að hagkerfið tók einhvers konar kollsteypu, eins og t.d. þá sem við stöndum frammi fyrir núna vegna afleiðinga heimsfaraldurs. Þetta var ein af kröfum verkalýðshreyfingarinnar í lífskjarasamningunum 2019 en náði ekki fram nema að hluta, að því leyti að í lögum um hlutdeildarlán er kveðið á um að þau nái einnig til þeirra sem ekki hafa átt íbúð í fimm ár. En þeir sem hafa misst heimili sitt, hvort sem því hafa fylgt gjaldþrot eða ekki, standa yfirleitt á núllpunkti og eru þannig í svipaðri stöðu og þeir sem eru að kaupa sitt fyrsta heimili. Þess vegna ættu sömu úrræði að standa til boða fyrir fólk sem misst hefur heimili sitt og fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð, og jafnvel fleiri því að leiða má líkur að því að fólk sem hefur átt og misst eign hafi að jafnaði fyrir stærri fjölskyldu að sjá en fólk sem er að kaupa íbúð í fyrsta sinn. En af hvaða ástæðu sem fólk er fast á leigumarkaði þá verður það að eiga möguleika á því að komast af honum. Svo eru líka vítin til að varast þau og við verðum að læra af bankahruninu 2008. Frumvarpið er ekki síst lagt fram vegna þeirra fjölmörgu einstaklinga og fjölskyldna sem misstu heimili sín á árunum eftir hrun. Þótt á því kunni vissulega að vera undantekningar var þar um einstaklinga og fjölskyldur að ræða sem báru enga sök á aðstæðunum sem þau lentu í heldur voru fórnarlömb aðstæðna þar sem þau bjuggu ekki yfir öðrum upplýsingum en þeim sem almenningi voru birtar. Þau gátu ekki séð fyrir þær efnahagslegu, fjárhagslegu hamfarir sem þá urðu.

Þótt sumir hafi náð betur en aðrir að koma bát sínum aftur á réttan kjöl hefur stór hópur aldrei náð að koma ár sinni fyrir borð síðan og er fastur á leigumarkaði, enn að gjalda fyrir afleiðingar hruns sem sumir vilja ræða sem sögulegan viðburð sem sé svo löngu liðinn að hann taki varla að ræða. Svo er ekki. Bankahrunið 2008 er enn óuppgert og fjölmargir búa við afleiðingar þess á hverjum degi. Úr þeim hópi sem misstu heimili sín á árunum eftir hrun hafa fjölmargir átt erfitt með að komast aftur inn á fasteignamarkaðinn. Þessir sömu einstaklingar hafa ekki áður getað nýtt úrræðin sem lögin fela í sér, enda voru þau fyrst kynnt árið 2016 og tóku ekki gildi fyrr en 1. júlí 2017 og náðu, sem fyrr segir, aðeins til fyrstu kaupenda.

Við verðum að sjá til þess að afleiðingar þeirra kollsteypna sem hagkerfið á vissulega eftir að taka með vissu millibili, eins og t.d. heimsfaraldurinn er dæmi um, valdi saklausum fórnarlömbum aðstæðna ekki jafn langvinnum erfiðleikum og afleiðingar bankahrunsins 2008 hafa gert. Það er vel þekkt hversu erfitt getur verið fyrir fólk á leigumarkaði að leggja fé til hliðar fyrir útborgun í íbúð. Flestir eiga nóg með að greiða af sínu húsnæði og á leigumarkaði er fólk sem almennt hefur ekki mikið á milli handanna og getur því illa eða ómögulega lagt fyrir. Þar við bætast þær gríðarlegu hækkanir á leigu sem þegar eru orðnar og eru einnig fyrirsjáanlegar á næstu mánuðum. Þannig er ljóst að það verður sífellt erfiðara fyrir fólk á leigumarkaði að leggja nokkuð fyrir. En segjum sem svo að einhverju þeirra tækist að leggja fyrir 100.000 kr. á mánuði, sem er ólíklegt að nokkurt þeirra geti og væri virkilega vel af sér vikið. 100.000 kr. á mánuði væru 1,2 milljónir á ári. 1,2 milljónir eru ekki einu sinni upp í nös á ketti á húsnæðismarkaði í dag og til að sá sparnaður skili einhverju þyrftu að líða 8–10 ár miðað við fasteignaverð í dag og á þessum árum myndi húsnæðisverðið sjálfsagt hækka enn frekar. Í stuttu máli er þetta fólk í vonlausri stöðu.

Annað sem þyrfti að gerast, sem þetta frumvarp nær reyndar ekki til en mér finnst ástæða til að nefna hér því að það er stórmál fyrir stóran hóp á leigumarkaði, er að slakað yrði á eiginfjárkröfum fyrir þann hóp því að það er algerlega út í hött að fólk sem staðið hefur undir dýrri leigu svo árum skiptir standist ekki greiðslumat til að standa undir afborgunum lána sem eru jafnvel tugum þúsunda lægri en leigan sem viðkomandi hefur þurft að greiða. Það er hins vegar annað mál sem ekki er tekist á við í þessu máli enda kannski frekar á færi fjármálastofnana en löggjafans, því að núgildandi löggjöf girðir ekki fyrir það. Mér finnst engu að síður ástæða að nefna þetta hér í ræðustól hins háa Alþingis því að þetta hefur verið ein helsta hindrunin sem fólk á leigumarkaði hefur staðið frammi fyrir þegar það hefur reynt að lækka húsnæðiskostnað sinn og bæta þannig hag sinn og fjölskyldunnar.

Með breytingu þessari er sem fyrr segir ætlunin að koma til móts við einstaklinga sem ekki hafa nýtt úrræðið áður og hafa ekki átt íbúð í þrjú ár þrátt fyrir að ekki sé um fyrstu íbúðarkaup að ræða. Þar á meðal eru margir einstaklingar, eins og áður hefur verið sagt, sem misst hafa húsnæði sitt í kjölfar bankahrunsins.

Í greinargerð frumvarpsins segir: Með frumvarpi þessu er lagt til að rétturinn til skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð verði ekki einskorðaður við fyrstu kaup, heldur verði einstaklingum sem ekki hafa átt íbúð undangengin þrjú ár einnig heimilt að nýta sér þetta úrræði. Ljóst er að stór hópur fólks missti eigið húsnæði á árunum eftir hrun og hafa fjölmargir átt erfitt með að komast aftur inn á fasteignamarkaðinn. Þessir sömu einstaklingar hafa ekki áður getað nýtt úrræðin sem lögin fela í sér enda voru þau fyrst kynnt árið 2016 og tóku ekki gildi fyrr en 1. júlí 2017. Það er vel þekkt hversu erfitt getur verið fyrir fólk á leigumarkaði að ná að leggja fé til hliðar fyrir útborgun í íbúð. Með breytingu þessari er ætlunin að koma til móts við einstaklinga sem ekki hafa nýtt úrræðið áður og ekki átt íbúð í þrjú ár, þrátt fyrir að ekki sé um fyrstu íbúðarkaup þeirra að ræða.

Í þessu frumvarpi eru nokkur atriði kjarni málsins; að fólk sem hefur verið á leigumarkaði í þrjú ár eða lengur njóti sömu réttinda og þeir sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð, að fólk sem hefur verið á leigumarkaði í þrjú ár eða lengur njóti skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar til kaupa á íbúð og einnig er lagt til að sá tími sem fólk hefur verið á leigumarkaði áður en það öðlast rétt á hlutdeildarlánum verði styttur úr fimm árum í þrjú. Annað er í raun ekki lagt til. Erfiðleikar þeirra sem eru á leigumarkaði eru nægir og í raun svo miklir að þetta mun ekki einu sinni gagnast öllum sem þar eru, en þó allmörgum. Þeim sem eiga möguleika á að skapa sér betra líf eigum við að sjálfsögðu að hjálpa og styðja til þess því að það er sameiginlegur hagur okkar allra.