Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað sýnir það forgangsröðun og áherslur hvert þú setur peningana. Þetta eru að stærstum hluta, eins og hv. þingmaður veit, tillögur ríkisstjórnar þannig að það hlýtur að sýna áherslur hennar. Um leið vil ég segja að það er ekki gott fyrirkomulag að þetta þurfi að gerast svona. Ég og hv. þingmaður erum sammála um það. (Gripið fram í.) Við viljum fá betri stefnumörkun, meira gegnsæi í fjárlögin og annað slíkt. Ég tek undir það varðandi húsnæðismálin, eins og við höfum rætt varðandi varasjóðinn, að þó að strax hafi verið upplýst um að þarna væru fjármunir inni þá er þetta ekki gott. Það er ekki gott að þeir skuli ekki vera settir undir málaflokkinn sem slíkan. Það er alltaf miklu betra og gegnsærra og í anda þess sem það á að vera.

Varðandi það hvort við fáum tillögur milli umræðna, af því að við höfum spurt og kallað eftir því, þá liggur ekki fyrir hvort við fáum tillögur um þetta til að millifæra á réttan lið. Ráðherra hefur sagt að hann muni óska eftir því að þetta fái flutning á milli ára, náist ekki að koma með tillögur fyrir 3. umr. sem ég vona sannarlega að verði, af því að þetta er auðvitað ætlað í ákveðna hluti og mér finnst vinnan vera farin að taka dálítið langan tíma. Því vona ég svo sannarlega að þetta komi til okkar milli umræðna og við getum losað þennan varasjóð við þessa peninga.