Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:51]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég nefndi það hér í minni ræðu að ég held að ég tilheyri ekki þeim armi stjórnarandstöðunnar sem talar um allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem svartnættið eitt. Ég nefndi að það eru hér viðbætur í heilbrigðiskerfinu og í löggæslumálum. En ég nefndi líka að í báðum póstum, ekki síst löggæslunni, er þetta viðbragð við mjög alvarlegu fjársvelti. Það er staðan. Ég stend líka við það að ég myndi vilja sjá meiri innspýtingu í heilbrigðiskerfið og við værum að horfa lengra fram í tímann þar. Ég hef líka staðið hér í þessum ræðustól og lýst yfir ánægju minni með margt af því sem hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson hefur sagt og hefur boðað en nú vil ég fara að sjá hann framkvæma í samræmi við sín góðu orð. Ég nefndi sálfræðiþjónustuna, ég hef nefnt samninga við lækna, þetta óþol ríkisstjórnarinnar fyrir sjálfstætt starfandi fagaðilum á sviði heilbrigðisþjónustunnar. Þannig að það er sitthvað gott en við erum ekki sammála um allt.