Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að lesa alla þessa, ja, hvað getum við kallað það, montrassapistla? Það þyrfti bara að banna ríkisstjórnum að skrifa svona innantóman texta einfaldlega vegna þess að hættan er að þær fari að trúa því að þær séu í alvörunni að gera þetta, sem er bara alls ekki málið. Ísland er ekki í fremstu röð. Þau eru ekki að taka forystu. Á sama tíma og þau voru að skrifa þennan texta þá jókst losun Íslands um 3%. Það er ekki vegna þess að þau voru í fremstu röð. Nei, það er vegna þess að þau voru léleg og eru enn. Þetta er eins og Greta Thunberg sagði, eintómt bla, bla, bla. Það er það eina sem þessi ríkisstjórn hefur fram að færa í loftslagsmálum. Snýst þetta um Kína og Bandaríkin? Þetta snýst um alla stærstu losendurna. Þetta snýst líka um þá sem smærri eru. Þetta snýst líka um það að þó að Ísland sé tölfræðilega svo lítið að það skipti eiginlega engu máli í losun þá erum við engu að síður eitt ríki á meðal allra hinna. Það er litið til okkar sem fyrirmyndar vegna þess að við eigum góða sögu að segja í orkuskiptum fyrri áratuga, vegna þess að við höfum græna ímynd. Þess vegna er ábyrgðarhluti hjá ríkisstjórninni að vera með innstæðulaust mont. Það sem við ættum að gera væri að taka alvöruskref og sýna fram á hvað ríki eins og okkar getur. Við höfum allt til að bera, við höfum orkuna, við höfum fjármunina, við höfum menntunarstigið, við höfum viljann til þess að taka orkuskiptin með trompi og kveðja jarðefnaeldsneyti í lífi almennra borgara þannig að fólk geti litið til okkar og séð þau skilaboð; ríki sem er búið að taka þetta skref sem við öll hin stefnum að. Það gæti haft miklu meiri áhrif en allar þær virkjanir sem fólki dytti í hug að troða hingað og þangað til að framleiða einhverja meinta græna orku.