135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

staða þjóðkirkju, kristni og kristnifræðslu.

[15:49]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Að undanförnu hefur mikið verið rætt um stöðu kristinnar trúar og trúarbragðafræðslu í skólakerfinu, m.a. í ljósi þess að í frumvarpi til nýrra grunnskólalaga er ekki lengur kveðið beint á um kristilegt siðgæði. Nefndin sem vann að endurskoðun grunnskólalaga undir forustu Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur var þess vel meðvituð að breyting sem þessi orkaði tvímælis og væri mjög viðkvæm. Víðtæk samvinna var höfð af hálfu nefndarmanna við hina ýmsa aðila, eins og guðfræðideild Háskólans, þjóðkirkjuna og umboðsmann barna. Niðurstaðan varð sú, m.a. í ljósi nýlegrar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu gagnvart Norðmönnum, að ekki væri stætt á öðru en að leggja til breytingu sem þessa á lögum.

Í frumvarpinu segir að starfshættir grunnskóla skuli „mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi“. Við erum því, frú forseti, síður en svo að úthýsa kristninni og kærleiksríku inntaki hennar úr grunnskólalögum. Kristin fræði gegna einnig þýðingarmiklu hlutverki í aðalnámskrá grunnskólans og er mikilvægasti þáttur trúarbragðakennslunnar. Á því verður engin breyting, enda erum við og höfum í árþúsund verið kristið samfélag. Menning okkar og saga einkennist og mótast mjög af kristni og vandséð er hvernig ungt fólk eigi að fá innsýn í og skilja samfélag sitt án haldgóðs skilnings á kristinni trú.

Ég nefni sem dæmi bókmenntir þar sem skírskotanir ýmsar í kristni og kristnihald, t.d. undir Jökli, er alls staðar að finna. Á hinn bóginn verðum við að gera greinarmun á fræðslu og trúboði, enda ekki hlutverk skólans að standa í slíku. Það er hlutverk kirkjunnar að sjá um þann hluta, rétt eins og það er hlutverk hennar að standa að fermingarfræðslu. Slíkt getur ekki orðið hluti af skóladagatali og þar með skyldunámi nemenda eins og vísbendingar voru um. Nemendur og foreldrar geta hér eftir sem hingað til óskað eftir leyfi vegna slíkra ferða og skólastjórnendum er heimilt að veita slíkt orlof. Almennt séð, frú forseti, hefur samstarf skólanna og kirkjunnar verið afar farsælt og verður vonandi engin breyting þar á.