135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir þá aðstoð sem hann bauð fram. Hann bauðst til að aðstoða mig við að fylgjast með því hvernig Samfylkingunni gengi að standa við stóru orðin og ég þigg alla slíka aðstoð með þökkum. Það mun koma sér vel að eiga hauk í horni þar sem er hv. þingmaður sem er auðvitað gagnkunnugur hinum stórbrotnu kosningaloforðum Samfylkingarinnar. Veruleikinn er sá að Samfylkingin gekk fram til kosninga síðastliðið vor með einhverjum stórfelldustu og ábyrgðarlausustu loforðum sem við höfum séð svona á seinni árum í íslenskri stjórnmálabaráttu, að slepptum kannski helst þeim sem Framsóknarflokkurinn hefur haft uppi þegar honum hefur tekist best upp.

Framsókn hefur að vísu haft þá stórkostlegu náttúru að það hefur stundum ekkert háð honum að gefa slík loforð jafnvel þó hann hafi verið í ríkisstjórn. Hann hefur jafnvel yfirboðið sjálfan sig með loforðum um að gera betur í málaflokkum sem hann fór sjálfur með eins og húsnæðismál á sínum tíma. En það er bara einfaldlega veruleiki, það er kaleikur sem Samfylkingin situr uppi með, að hún fór algjörlega fram úr sér í loforðum. Hún yfirbauð meira að segja sjálfa sig því henni nægðu t.d. ekki sameiginlegar áherslur stjórnarandstöðunnar í velferðarmálum frá síðastliðnu hausti. Þegar kom inn í kosningabaráttuna fór hún að lofa meiru á meðan hinir stjórnarandstöðuflokkarnir héldu sig við það sem samstaða hafði tekist um hér á haustmánuðum þeirra í millum.

Hv. þingmaður rifjaði það upp, sem mun rétt vera, að frambjóðendur Samfylkingarinnar fóru mikinn og lofuðu gjaldfrelsi í gegnum Hvalfjarðargöng. Norður í landi lofaði Samfylkingin gjaldfrjálsum Vaðlaheiðargöngum strax og eignaðist svo samgönguráðherrann öllum að óvörum. Ég gat nú ekki heyrt á þeim ágæta manni að (Forseti hringir.) loforð frambjóðenda Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi væru í þann veginn að rætast þegar hann tjáði sig við fjölmiðla hér á dögunum. Þannig (Forseti hringir.) að við skulum nú sjá hvernig hv. þingmanni gengur að ná þessu fram.