135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:50]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar rétt að fylgja eftir spurningu sem hefur í raun verið beint til hv. þm. Guðbjarts Hannessonar. Í framhaldi af orðum hans hér áðan, að hann væri nú að koma sér heim á leið í gegnum Hvalfjarðargöngin og borga sitt veggjald, sem hann vonaðist til að yrði fellt niður hið fyrsta, langar mig að vekja athygli á því að fyrir liggja þingmál sem lúta m.a. að því að fella niður veggjöld í Hvalfjarðargöngum. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort ekki megi vænta þess að þingmaðurinn beiti sér fyrir því í röðum stjórnarliða að þau þingmál fái góðan framgang, að hann muni styðja þau á þessu þingi til þess að ná fram markmiði sem hann setti fram, og hans flokkur, í Norðvesturkjördæmi í síðustu kosningum. Ég trúi því sannarlega að hann vilji að það verði að veruleika.

Ég kalla eftir því að þingmaðurinn geri grein fyrir því hvort hann muni styðja þau þingmál sem þegar hafa verið lögð fram á þessu þingi og lúta að því að koma á gjaldfrelsi í Hvalfjarðargöngum sem þingmaðurinn hefur verið að ræða hér um.