137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[19:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ræða var eftir forskriftinni sem hv. samfylkingarþingmenn hafa notað, að það er lofað og það er hótað. En það vantaði eitt og það er að við hefðum áhrif í Evrópusambandinu. Menn hafa flestir sagt að við hefðum líka áhrif með þessum þremur eða fjórum þingmönnum af 600. Hv. þingmaður lofaði því að þetta losar um verðtryggingu. Ég ætla að koma inn á þann punkt. Verðtryggingin var á sínum tíma tekin upp til að tryggja lífeyrissjóðina aðallega. Þeir brunnu upp í verðbólgunni og það eru alltaf tveir sem eiga aðild að verðtryggingu. Það er einn sem fær verðtryggingu, sparifjáreigandi, gamall maður eða gömul kona, lífeyrissjóður og annar sem borgar, lántakandi. Ég spyr hv. þingmann: Hvernig ætlar hún að leysa verðtrygginguna, alla þá einkasamninga sem eru í gildi um verðtryggingu þegar evran verður tekin upp? Á þá að gilda verðtrygging á evru eða hvernig ætla menn að leysa þetta? Þetta er alveg óleyst. Þetta þarf að leysa áður en skipt er um gjaldmiðil, ekki spurning.

Svo er það önnur spurning til hv. þingmanns. Á hvaða gengi á evru á að skipta? Ætla menn að taka núverandi gengi og keyra allar skuldir í innlendum krónum niður og allar inneignir líka eða hvernig ætla menn að fara að því? Þetta er líka óleyst.

Svo vil ég gjarnan spyrja hv. þingmann af því að allir flokkar ræða þetta fram og til baka um kosti og galla nema Samfylkingin. Hún ræðir bara kosti. Fyrir hana er þetta fundinn sannleikur. Hún þarf ekki að leita að sannleikanum lengur. Hún er búin að finna hann. Getur hv. þingmaður nefnt mér nokkra galla við aðild að Evrópusambandinu?