140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég óska hæstv. fjármálaráðherra, Oddnýju G. Harðardóttur, innilega til hamingju með fyrstu ræðu sína sem ráðherra. Það var hins vegar eftirtektarvert að hlusta á forustumenn ríkisstjórnarinnar ræða um störf og stefnu hennar. Það kallaði fram ákveðna mynd í huga mér. Á sínum tíma teiknaði Sigmund fyrrverandi forsætisráðherra oft með þessi fínu sólgleraugu þar sem hann horfði bjartsýnn fram á það sem sumir mundu kalla hyldýpi þjóðargjaldþrots. Þar sem þau sólgleraugu eru greinilega komin á nef ráðherranna, forustumanna ríkisstjórnarinnar, mundi ég vilja að við límdum inn á glerin tvo miða; miða með orðinu „atvinna“ og miða með orðinu „skuldir“. Það eru og verða lykilverkefni stjórnmálanna að mati okkar framsóknarmanna, atvinna og skuldir.

Án vinnu verður nefnilega enginn vöxtur og engin velferð, og heimili og fyrirtæki sem eru að drukkna í skuldum skapa engin ný störf. Fyrirtæki sem eru tæknilega gjaldþrota leggja ekki í nýfjárfestingar, rannsóknir eða þróun og ráða ekki nýja starfsmenn. Á heimilum sem eru á mörkum þess að geta greitt skuldir sínar er beðið með að endurnýja kaffikönnuna, sjaldnar farið í klippingu og ekið eins lengi á gömlu sumardekkjunum og mögulegt er. Við höfum kannski orðið áþreifanlega vör við það síðastnefnda í ófærðinni á síðustu dögum og vikum. Afleiðingin er kyrrstaða og stöðnun í samfélaginu. Þetta er staðreynd. Engin vinna, enginn vöxtur og engin velferð — þrátt fyrir bjartsýnina, þrátt fyrir sólgleraugun á nefinu.

Við framsóknarmenn höfum því ítrekað lagt fram tillögur sem miða að því að aðstoða ríkisstjórnina við að taka á skuldavandanum. Því miður hafa þær tillögur verið hunsaðar. Þúsundir heimila bíða eftir niðurstöðum frá umboðsmanni skuldara um greiðsluaðlögun. Fjöldi heimila er enn yfirskuldsettur þrátt fyrir 110%-leiðina. Fjöldi ungs fólks er án réttlátrar leiðréttingar vegna þess að það gerði þau hræðilegu mistök að fá lánuð veð hjá ættingjum eða vinum við kaup á íbúðarhúsnæði. Þúsundir hafa horft á eignarhlut sinn í heimilinu gufa upp þrátt fyrir að hafa borgað samviskusamlega mánuð eftir mánuð af lánum og eftir að hafa tæmt alla varasjóði og tekið út séreignarsparnað.

Það var mjög sorglegt að heyra það á sínum tíma þegar stjórnvöld lýstu því yfir að ekkert frekar væri hægt að gera fyrir heimilin. Því er ekki að undra að fólk spyrji hvers vegna í ósköpunum það eigi að halda áfram að borga, halda áfram að berjast, halda áfram að trúa á vilja stjórnvalda til að aðstoða heimilin þegar þetta eru svörin sem það fær.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, kynnti í nóvember hugmynd um að nýta skattkerfið til að leysa úr vanda yfirskuldsettra heimila og takast á við lánsveð og skort á greiðsluvilja. Það yrði gert með því að afborganir af húsnæðislánum yrðu skattfrjálsar upp að vissu marki. Með því að skipa starfshóp með fulltrúum allra þingflokka og sérfræðingum væri mögulegt að útfæra þá hugmynd frekar og samþykkja hugsanlegt lagafrumvarp í vor. Vonandi getur það orðið.

Við leggjum einnig mjög mikla áherslu á að forustumenn stjórnarflokkanna geri það sem þeir töluðu um í stjórnarandstöðu og vinni að því að afnema verðtryggingu, sérstaklega á neytendamarkaði. Við bindum miklar vonir við að efnahags- og viðskiptanefnd skili fljótlega af sér tillögum um leiðir til þess.

Síðan er það atvinnan. Við höfum lagt fram nær 50 tillögur um það hvernig hugsanlega væri hægt að skapa 12.000 ný störf. Ég vona svo sannarlega að stjórnvöld séu tilbúin að skoða þær hugmyndir okkar. Ég vil gjarnan nálgast atvinnusköpun út frá sjálfbærninni sem kemur fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þá á ég við sjálfbærni sem er ekki bara skilgreind sem jafnvægi á milli efnahagsvaxtar, félagslegrar velferðar, jafnaðar og verndunar umhverfisins, heldur að við verðum sjálfum okkur nóg í mun meira mæli, að við verðum sjálfbær, að við veltum fyrir okkur hvað við getum framleitt hér innan lands í auknum mæli, sköpum störf innan lands og spörum gjaldeyri.

Mikilvægur þáttur í því er að nýta auðlindir okkar, fiskinn okkar, orkuna okkar, vatnið okkar, landið okkar og fólkið okkar á sem bestan hátt fyrir Ísland, núverandi íbúa þessa lands og framtíðarkynslóðir. Hluti af því er að virkja. Þannig gerum við okkur í alvöru sjálfbær. Það er það sem við gerðum í framhaldi af seinni heimsstyrjöldinni. Næstu skref eru að tryggja að landbúnaður og sjávarútvegur (Forseti hringir.) nýti sem mest innlenda og endurnýtanlega orkugjafa og að við reynum að vinna áfram að innlendri matvælaframleiðslu. (Forseti hringir.) Tökum á skuldunum. Byggjum upp atvinnu. Tryggjum þannig velferðina og sjálfbærnina.