140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að æskilegt væri að menn tækju orð hv. þm. Skúla Helgasonar alvarlega og ynnu saman á vorþingi að góðum málum. Ég held hins vegar að hv. þm. Skúli Helgason þurfi að byrja á því að komast úr sjálfsblekkingarham sínum og vísa ég sérstaklega til orða hans í upphafi ræðunnar og hvet menn til að skoða þau. Hv. þingmaður var í stjórnarmeirihluta á síðasta kjörtímabili, þá sat ég í ríkisstjórn með Samfylkingunni sem aldrei nokkurn tímann varaði við hruni eða gerði augljóslega ekki nóg til að breyta einhverju, ef hægt var, varðandi eftirlitskerfið sem var á þeirra ábyrgð, á ábyrgð ráðherra þeirra eins og hv. þingmaður þekkir mætavel.

Menn hafa sérstaklega gagnrýnt sumt í fortíðinni eins og 90% lánin og jafnvel að of greitt hafi verið farið í skattalækkanir. Hv. þingmaður veit mætavel að Samfylkingin vildi ganga lengra í skattalækkunum og vildi ganga lengra þegar kom að 90% lánunum. Það er algjörlega útilokað að menn geti náð árangri án þess að líta á hlutina eins og þeir eru. Það er kannski vandinn við hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn sem styðja hana, það virðist vera afskaplega lítil tenging hjá þeim við raunveruleikann.

Hér fór hæstv. forsætisráðherra að tala um hvað allt hefði gengið stórkostlega vel. Meðal annars fór hæstv. forsætisráðherra yfir hvað ráðherraskipanin hefði lukkast vel og nefndi að velgengnissaga bæði velferðarráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins væri slík að annað eins hefði ekki sést. Ég vil þá spyrja vegna þess að ég hef ekki séð það: Hvar er stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum? Hvar er stefna ríkisstjórnarinnar í félagsmálum? Hvar er stefna ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum? Umferðaröryggismálum? Forvarnamálum? Erum við að ræða góða, vel ígrundaða stefnumótun sem við getum tekið afstöðu til? Nei, virðulegi forseti. Menn eru á hlaupum við gerð fjárlaga að reyna að bjarga því sem bjargað verður þegar gerð er krafa um flatan niðurskurð í öllum málaflokkum.

Það segir okkur, virðulegi forseti, að annaðhvort gengur verkstjórnin ekki vel hjá ríkisstjórninni eða að þessar sífelldu breytingar á stjórnkerfinu geri hæstv. ráðherrum svolítið erfitt fyrir þar sem menn þeytast með skrifborðin sín á milli húsa og hafa gert allt kjörtímabilið. Það vita allir, virðulegi forseti, nema kannski hv. stjórnarliðar, að hér eru ráðherrar teknir út ef þeir hlýða ekki. Ég er að vísa hér til foringjaræðisins sem aldrei hefur verið meira.

Það vita allir, virðulegi forseti, að (Gripið fram í.) hv. þm. Jón Bjarnason vogaði sér að fara eftir tvennu; annars vegar stefnu flokks síns í Evrópumálum og sömuleiðis stefnu ríkisstjórnarinnar. Það gekk ekki eftir og fór ekki vel í hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra sem núna er með fimm ráðuneyti. Það sama á við um hæstv. ráðherra Árna Pál Árnason sem sýndi sjálfstæði. Það var ekki vel séð, virðulegi forseti, og ekkert annað að gera en taka hann út úr ríkisstjórninni. Það virðist enginn taka eftir því að sá aðili er með þokkalegt pólitískt umboð, mundi maður ætla, sem oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Atlagan gegn honum er blygðunarlaus og öllum ljós, ef undan er skilinn hæstv. forsætisráðherra. Sá maður skal út með öllum ráðum vegna þess að hann sýndi ákveðið sjálfstæði.

Það er kannski lýsandi dæmi að hæstv. utanríkisráðherra — og hvar annars staðar í heiminum gæti þetta gerst? — kemur fram og segir: Heyrðu, ég er hérna með smámál. Hæstv. forsætisráðherra á að hætta. Hæstv. forsætisráðherra bara út. Og hæstv. forsætisráðherra (Gripið fram í: Ég?) — nei, sem er alls ekki hv. þm. Birkir Jón Jónsson en það er samt grunsamlegt hvernig hann tók þessu — á heldur ekki að vera formaður. Svo tilgreinir hæstv. utanríkisráðherra nokkra sem hann telur að komi til greina. Ég hef leitað að einhverjum samfylkingarmanni sem hefur komið í kjölfarið og sagt: Hér er of langt gengið. Hvað er hæstv. utanríkisráðherra að skipta sér af málum og segja að hæstv. forsætisráðherra eigi að hætta? Ég hef ekki fundið einn einasta, ég hef ekki fundið eitt lesendabréf þar sem þessu er mótmælt, og það er mjög áhugavert.

Virðulegi forseti. Stærsti einstaki vandinn hjá hæstv. ríkisstjórn er að hún virðist ekki horfast í augu við raunveruleikann. Hér ætlaði hæstv. forsætisráðherra að spinna upp að það væru bara Samtök atvinnulífsins sem segðu að hér væri um svik að ræða. Virðulegi forseti. Farið bara og leitið með Google í tölvunni og setjið inn Gylfa Arnbjörnsson og svik. Það kemur ýmislegt upp. Og það eru alltaf svik við ríkisstjórnina. Ríkisstjórnin svíkur, aðrir standa, en ríkisstjórnin svíkur. Þessu getur hver og einn (Forseti hringir.) landsmaður flett upp. Enginn getur haldið því fram að forseti ASÍ sé sérstaklega óvilhallur þessari ríkisstjórn. (Forseti hringir.) Samt sem áður hefur hann, eins og allir aðrir, bent á að ríkisstjórnin stendur ekki við orð sín og er ekki í takti (Forseti hringir.) við þjóðfélagið.