140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

gerð og fjármögnun Vaðlaheiðarganga.

213. mál
[17:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég hef ekki orðið vör við að einhver sé á móti framkvæmdinni sem slíkri, síður en svo, en ef við förum í þessa framkvæmd verður hún að vera gerð á réttum forsendum. Sett hefur verið fram rökstudd gagnrýni, ákveðnar efasemdir um þær forsendur sem hafa verið gefnar til grundvallar þessum framkvæmdum. Það er eðlilegt, ekki síst í ljósi sögunnar, að við förum gaumgæfilega yfir allar þær forsendur sem liggja bak við þessar framkvæmdir.

Ég var á fundi í síðustu viku um meðal annars krónuna, framtíð hennar o.s.frv. Það sem var lykilatriði í málflutningi allra, hvort sem það voru fylgjendur krónunnar eða talsmenn þess að taka upp aðra mynt, var öguð hagstjórn. Þess vegna vil ég í rauninni lýsa yfir stuðningi mínum við þá nálgun sem kom fram í máli innanríkisráðherra að þetta sé hjá þinginu, að þinginu beri skylda til að fara gaumgæfilega yfir þetta áður en tekin er ákvörðun í þessu máli, en þá þurfum við líka að taka umræðuna á breiðari grunni. Ég hef átt orðastað við hæstv. innanríkisráðherra og lýst óánægju (Forseti hringir.) minni með að einungis innan við 10% af nýframkvæmdafé renni til suðvesturhornsins. Við þurfum að taka þessa umræðu upp (Forseti hringir.) í miklu, miklu víðara samhengi.