140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

umskipunarhöfn í tengslum við norðurslóðasiglingar.

214. mál
[17:50]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þakka sömuleiðis eins og aðrir þingmenn þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún er þörf og góð. Ég vil samt sem áður vekja athygli á því að það er stundum hollt að hreyfa sig hægt.

Ég held að það sé að mörgu að hyggja í því efni sem lýtur að auknum tækifærum á norðurslóðum. Þessi siglingaleið hefur verið tiltölulega lengi til umræðu. Það liggur fyrir að við erum að keppa við önnur lönd um mögulega staðsetningu. Ég vil líka benda á að það er í sjálfu sér ekkert víst hvernig þessari siglingaleið reiðir af. Flestir hallast að því að aukin bráðnun sé á norðurskautinu, þó eru uppi efasemdir um það. Ég minni á að hér á landi hafa jöklar bæði hopað og vaxið. Það er ekki ýkjalangt síðan, ekki nema nokkur hundruð ár, að talað var um Vatnajökul sem Klofajökul. Þá var farið þvert í gegnum hann. Nú liggja fyrir spár bæði norskra og kínverskra vísindamanna um meiri kólnun á norðurskautinu en áður hefur verið.

Þetta er langtímamál (Forseti hringir.) sem ber að vanda sig við og ég heyri það að ráðuneytið hefur lagt ágætan grunn að frekari vinnu.