140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ljósmengun.

132. mál
[18:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka þátttakendum í þessari umræðu, þó sérstaklega hæstv. umhverfisráðherra. Í umhugsun og umræðum um þetta lærir maður alltaf eitthvað nýtt og á laugardaginn lærði ég það af Snævarri Guðmundssyni, sem hélt fyrirlestur á þessum fundi sem ég minntist á, að það er ekki það sama myrkur og myrkur. Myrkrið á Íslandi er óvenjugott, það er mjög gott myrkur á Íslandi. [Kliður í þingsal.] Myrkrið er sem sagt ein af auðlindum okkar og nú verðum við að passa að varðveita þessa auðlind sem best. Ég kann ekki að orða það fræðilega en þessi dómur um myrkrið er geimræns eða stjarnfræðilegs eðlis. Við erum sem sé að sóa auðlind með því að passa ekki upp á þetta.

Það er vissulega hægt að fara út fyrir bæinn en það þarf alltaf að fara lengra og lengra eins og hinn ágæti formaður Þingvallanefndar benti á, hv. þingmaður. Á það hefur líka verið bent að ef upp kemst það gróðurhús sem á að byggja á Hellisheiði verði nánast ljósmengun alla leiðina að Þingvöllum. Við þurfum að passa upp á þetta. Að sumu leyti stafar þetta af lifnaðarháttum okkar en að sumu leyti af aðgæsluskorti. Ég er með mynd fyrir framan mig af Hafnarfjarðarkirkju og krossinn er upplýstur. Það er ágætt að lýsa hann upp en í kringum hann er 5 metra radíus og þetta ljós fer allt til spillis og verður að þessum lofthjúp sem ég talaði um.

Ég held að það séu mikilvægar fréttir sem hæstv. umhverfisráðherra flytur um skilgreiningu og ákvæði í byggingarreglugerð. Ég held líka að við getum haldið þessu áfram með því að stofna um þetta svolítinn hóp, hvort sem hæstv. umhverfisráðherra setur hann af stað eða við gerum það með þingsályktunartillögu í þinginu. Mér finnst það eðlilegt næsta skref að þetta umhverfi verði athugað, (Forseti hringir.) hvernig þessu er háttað í myrkurgrannlöndum og að við reynum að koma þessu af stað þannig að við varðveitum sem best (Forseti hringir.) þessa auðlind.