140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

fjárframlög til veiða á ref og mink.

151. mál
[18:27]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Það er orðið árvisst nú í allnokkur ár að við skiptumst á skoðunum um ref og gott að halda því ágæta umræðuefni við í þingsal.

Á síðasta ári var ekki varið fjármunum á fjárlögum til að endurgreiða kostnað sveitarfélaga vegna veiða á ref og við fjárlagagerðina vegna yfirstandandi árs gerði ráðuneytið heldur ekki tillögur um fjárveitingar úr ríkissjóði vegna veiða hjá sveitarfélögunum.

Umhverfisráðuneytið eins og önnur ráðuneyti hefur staðið frammi fyrir því verkefni að draga úr ríkisútgjöldum og þá hafa auðvitað komið fyrst til álita þau framlög sem ekki eru beinlínis lögbundin og þetta er eitt af þeim. Hv. þingmaður nefnir sögur af dýrbítum og þær sögur eru viðvarandi og í raun gegnumgangandi í Íslandssögunni og samstiga henni því dýrbítar hafa alltaf verið til og hafa alltaf verið andstyggð (Gripið fram í.) og hafa alltaf hreyft við tilfinningum fólks. En hins vegar er það svo að þó að sveitarfélögin hafi sannarlega takmörkuð fjárráð, eins og hv. þingmaður nefndi, og það gildir fyrst og fremst auðvitað um þau minni, kemur sá veruleiki, eins og við í salnum vitum öll, ekki síður við ríkissjóð.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um aukin fjárframlög til veiða á mink. Það er rétt eins og kom fram í máli hans að það er ólíkt viðfangsefni og snertir tilurð þeirrar skepnu í íslenskri náttúru vegna þess að minkurinn er í raun og veru framandi tegund á meðan refurinn tilheyrir íslenskri náttúru frá því fyrir landnám. Á fjárlögum á árunum 2006–2010 voru veittar alls um 86 millj. kr. til endurgreiðslu á hluta kostnaðar sveitarfélaga af minkaveiðum. Jafnframt og samhliða því var farið í sérstakt tilraunaverkefni um svæðisbundna útrýmingu á mink á tveimur svæðum á landinu, annars vegar á Snæfellsnesi og hins vegar í Eyjafirði á árunum 2006–2009. Ríkið veitti til þessa verkefnis um 140 millj. kr. á fjárlögum til rannsókna og veiða. Að auki styrktu hagsmunaaðilar verkefnið með 12 millj. kr. en kostnaður sveitarfélaga vegna veiða á mink var á sama tímabili um 266 millj. kr. Alls hefur því verið varið á þessu umrædda tímabili rétt um hálfum milljarði kr. til útrýmingar á mink.

Á sama tímabili hefur ríkið veitt 82 millj. kr. til endurgreiðslu á hluta kostnaðar sveitarfélaga vegna refaveiða og sveitarfélögin um 75 millj. kr. þannig að alls hefur því verið varið miklum mun minni fjárhæð til refaveiða eða um 157 millj. kr. Ráðuneytið bíður nú lokaniðurstöðu úr þessu tilraunaverkefni um svæðisbundna útrýmingu á mink á Snæfellsnesi og í Eyjafirði og við verðum auðvitað að skoða þá niðurstöðu og rýna hvernig verkefninu reiddi af. Annars vegar er um að ræða nes og hins vegar fjörð og verður áhugavert að sjá hvernig svæðin koma út í samanburði því að það er ljóst með skepnu eins og minkinn að hann spyr ekki að sýslumörkum, hvað þá heldur kjördæmamörkum. Þess vegna þarf að skoða hvernig svæðisbundnar áherslur koma út. Sett var sérstök umsjónarnefnd sem mun væntanlega gera tillögur um möguleg næstu skref í ljósi árangursins af þessu verkefni og afstaða mín mun væntanlega mótast af þeim niðurstöðum sem koma þar fram. Skýrsla um tilraunaverkefni um svæðisbundna útrýmingu á mink á Snæfellsnesi og í Eyjafirði er eins og ég segi væntanleg, og ég treysti hv. þingmanni til að halda mér við efnið í þingsal. Við munum væntanlega skiptast á skoðunum um það þegar skýrslan liggur fyrir.