140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

Náttúrufræðistofa Kópavogs.

327. mál
[19:05]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka enn fyrir góða og skynsamlega umræðu og tek undir orð hv. fyrirspyrjanda að því er varðar mikilvægi Náttúrurfræðistofu Kópavogs en árétta enn og aftur þá stöðu sem uppi er gagnvart lögunum og þeim fyrirheitum sem hafa verið gefin gagnvart suðaustursvæðinu.

Aðeins að lokum í þessari umræðu vil ég taka undir ábendingar fyrirspyrjanda varðandi Náttúruminjasafnið og þá mikilvægu umræðu. Ég held að við séum komin á þann stað að við getum farið að taka þar upp þráðinn aftur og það er sannarlega sameiginlegt viðfangsefni, ekki bara okkar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra heldur ekki síður þvert á pólitíska flokka. Það er eitt af því sem við þyrftum að hafa hér á landi til að sýna Náttúruminjasafni Íslands sóma og fyrir gesti okkar en ekki síður fyrir börnin okkar og þá sem mikilvægast er að öðlist þekkingu og djúpan skilning á þeim fyrirbærum sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða.

Ég vil nefna aðeins varðandi stöðu nágrannasveitarfélaga höfuðborgarinnar, en þetta er mér mjög kært umræðu- og umhugsunarefni eftir að hafa verið sveitarstjórnarmaður í Reykjavíkurhreppi, að við höfum tiltekin tæki og amboð til að stilla betur saman strengi á höfuðborgarsvæðinu en við höfum kannski borið gæfu til að nýta, þ.e. svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Þar getum við með miklu markvissari hætti en við höfum gert stillt saman strengi að því er varðar samgöngur, uppbyggingu á verslun og þjónustu o.s.frv. Við höfum svolítið í aðdraganda hruns eða eftir 2000 verið kannski hvert og eitt okkar að byggja upp eigin framtíðarsýn frekar en að stilla saman strengi sem við hefðum kannski betur gert því að það liggja gríðarlega mikil verðmæti í draugahverfum.

Ég vil líka nota tækifærið og óska Kópavogsbúum til hamingju með friðlýsingu Skerjafjarðar.