140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

afrekssjóður Íþróttasambands Íslands.

284. mál
[19:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda, það er náttúrlega mjög mikilvægt að fylgja íþróttastefnunni eftir. Það er eitt af því sem við ræddum talsvert á fundi með formönnum og fulltrúum sérsambanda sem haldinn var í síðustu viku. Þá velti fólk því fyrir sér hvernig vinna ætti úr þessari stefnu. Það þarf bæði að skoða fjárframlög, eins og hv. þingmaður nefndi, og hvernig við getum unnið að ýmsum samlegðaráhrifum í kerfinu. Það þarf sérstaklega að skoða þjóðarleikvanga eins og þar er nefnt. Það eru því ýmis verkefni fram undan og það var mjög gott að eiga það samtal við sérsamböndin.

Hvað varðar lýðheilsumálin get ég tekið undir með hv. þingmanni að afreksfólkið er mjög mikilvægar fyrirmyndir sem efla áhuga barna og ungmenna á íþróttum. Sumir hafa sagt að því fyrr sem börnin byrja að venja sig á reglubundna hreyfingu, því betra, það sé mjög mikilvægt að ala þau upp í þeim venjum til að tryggja góða heilsu til lengri tíma og þar skiptir afreksfólkið auðvitað máli.

Ég ítreka að ég lít svo á að hækkun á framlagi til þessara mála núna sé áfangi á þeirri leið. Við erum að vinna að þessum samningum eins og ég nefndi og við verðum að setja stefnuna á að komast í áföngum nær þeim viðmiðum sem við sjáum annars staðar á Norðurlöndunum.