143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

framlög til framhaldsskóla í fjárlögum.

[10:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt, sem fram kom í máli hv. þingmanns, að margir skólar eru í þeirri stöðu að það skortir upp á fjármagn til að sinna ýmsum verkefnum sem nauðsynlegt er að sinna. Það er þó rétt að hafa í huga — ég hef sagt það áður en það er rétt að nota tækifærið og minna á það — að þegar kemur að því fjármagni sem er til rekstrar framhaldsskólastigsins er það sama fjármagn og var fyrir ári ásamt verðbótum. En það er alveg rétt, sem hv. þingmaður nefnir, að lagt er upp með það í fjárlagafrumvarpinu að bæta aðeins í til Menntaskólans í Reykjavík.

Þar sem spurt var sérstaklega að því hvort um einhvers konar stefnubreytingu væri að ræða er svarið nei. Enga stefnubreytingu má lesa úr þessari tillögu sem er í fjárlagafrumvarpinu. Hvað varðar aðrar framkvæmdir hér í Reykjavík, framhaldsskóla í Reykjavík, liggur fyrir verkáætlun þar. Framkvæmdir standa til dæmis yfir við Menntaskólann við Sund og engar breytingar þar fyrirhugaðar.

Rétt er að hafa það með í þessari umræðu að þegar um stofnkostnað er að ræða þarf að liggja fyrir samkomulag við sveitarfélagið sem viðkomandi skóli er í þar sem sveitarfélagið kemur á móti hvað varðar stofnkostnaðinn, 40%. Miðað við það hvernig þetta er fært hljótum við að ræða líka um þá leið við Reykjavíkurborg, um þeirra mótframlag. Þetta eru ekki þær fjárhæðir að hægt sé að ráðast í framkvæmdir, byggja ný hús eða neitt þess háttar. Það þarf að vega og meta hvernig þessu verður best varið. En ljóst má vera og enginn þarf að (Forseti hringir.) vera í neinum vafa um að það eru mörg brýn verkefni innan Menntaskólans í Reykjavík sem ráðast þarf í.