143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[13:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að fagna afgreiðslu hv. allsherjar- og menntamálanefndar á þessari tillögu, um leikskóla að loknu fæðingarorlofi, sem flutt er af hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur og okkur öllum hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Auðvitað miðast tillagan við að fyrir liggi áætlanir um að lengja fæðingarorlofið upp í eitt ár, en það hefur líka orðið sameiginlegur skilningur okkar sem skipum ólíkar stjórnmálahreyfingar hér á Alþingi að á grundvelli samþykktar þessarar tillögu verði hægt að ræða framtíðarsýn um fæðingarorlof. Þó að þröngt sé í búi er líka stundum hægt að gera breytingar með því að breyta forgangsröðun. Við höfum mjög skýr dæmi um það í stjórnmálasögunni hvernig breytingar hafa orðið, jafnvel ekkert með miklum látum og í hljóði, á samfélagi okkar sem hafa skipt alveg óskaplegu máli fyrir líf fólksins í landinu. Ég get nefnt sem dæmi um það lögin um fæðingarorlof á sínum tíma sem breyttu algjörlega aðstöðumun kynjanna til að taka þátt í uppeldi barna sinna og lenginguna á fæðingarorlofi sem líka skipti gríðarlegu máli hvað varðar þátttöku kvenna og karla á vinnumarkaði.

Ég vil líka nefna á sveitarstjórnarstigi þegar Reykjavíkurlistinn á sínum tíma fór í það átak að fjölga leikskólum í Reykjavík. Þar komu saman vinstri og miðjuflokkarnir í Reykjavík og gjörbreyttu í raun aðstöðu foreldra og barna á þessum aldri til að fá rými inn á leikskóla. Þegar við skoðum þessar breytingar í sögulegu samhengi er það svo merkilegt að svona breytingar sem lúta að því að styrkja innviði almannaþjónustunnar, eins og að lengja fæðingarorlof, eins og að tryggja þátttöku beggja foreldra, eins og að tryggja leikskólarými — við sjáum þeirra stað beinlínis þegar við skoðum vinnumarkaðinn, hvernig til að mynda konum fækkaði marktækt í hlutastörfum í kringum breytingar á framboði leikskólarýma í Reykjavík svo að dæmi sé tekið, hvernig atvinnuþátttaka kvenna jókst í kringum þær breytingar. Þær ákvarðanir sem við getum tekið hér, stjórnmálamenn á vettvangi Alþingis og á vettvangi sveitarstjórna, geta því haft gríðarleg áhrif á lífskjör og tækifæri fólks í þessu landi.

Ég vil nú segja það að þó ég eldist hratt er ég enn á barneignaaldri og það skiptir alveg gríðarlegu máli fyrir ungt fólk í landinu, sem er á þessum aldri, að geta gengið að tryggri vistun vísri, að hafa ákveðið öryggi um það hvernig fyrstu mánuðum og árum í lífi barns verður nákvæmlega háttað. Það öryggi er alls ekki fyrir hendi í öllum sveitarfélögum eins og staðan er nú. Sums staðar hefur tekist að koma til móts við foreldra þannig að leikskóladvöl sé í boði frá um það bil eins árs aldri, annars staðar er það alls ekki svo. Ég get nú talað fyrir höfuðborgarsvæðið í því sambandi, það er alls ekki svo hér.

Það væri draumur minn að lengja fæðingarorlofið upp í eitt ár eins og samþykkt hafði verið og var því miður fellt brott, ég harma það mjög, og jafnvel að horft væri til Svíþjóðar þar sem möguleikar eru á að taka lengra fæðingarorlof, það er að einhverju leyti valkvætt, þannig að foreldrum stæði til boða að annaðhvort taka lengra fæðingarorlof eða eiga kost á leikskólarými. Það er nú vissulega svo að börnin eru misjöfn. Sumum hentar betur að vera aðeins lengur heima, öðrum síður, en það er mjög mikilvægt, finnst mér, að ákveðinn grunnur sé tryggður. Mér finnst að fyrsti áfangi þess eigi að vera eitt ár að lágmarki sem skiptist jafnt á milli kynjanna eins og lagt hafði verið til. Síðan finnst mér mikilvægt að ákveðinn sveigjanleiki sé innbyggður í kerfið.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, bara það að mjúku málin sem stundum eru kölluð svo geta reynst miklu harðari en öll þau hörðu mál sem stundum eru rædd því þau hafa svo bein áhrif á það hvernig lífi okkar er háttað. Þetta skiptir líka máli, finnst mér og ég fagna þeim samræðum sem hafa farið fram, ekki bara út frá þessari velferðarpólitík sem ég hef hér rætt, heldur líka í menntapólitíkinni.

Það er umhugsunarefni hversu mikil ánægja fólks er með leikskólastigið, hversu mikið og gott faglegt starf fer fram á leikskólum víða um land sem hefur auðvitað tekið alveg stórkostlega stórstígum framförum á undanförnum árum og áratugum. Það hefur verið alveg sérstaklega áhugavert, fannst mér til að mynda, þegar ég átti því láni að fagna að gegna embætti menntamálaráðherra að kynnast ólíkum stefnum í leikskólastarfi víða um land og sjá allan þann faglega metnað sem þar er til staðar. Mér finnst því líka mikilvægt að við munum eftir því samhengi, því ég tel að með þessum breytingum og með því að geta tryggt foreldrum leikskólavist fyrir börnin sín erum við líka að styrkja menntakerfið okkar og veita börnunum þá menntun sem þar fram. Vissulega ekki, eins og menntun er í huga margra, svona á hefðbundinn hátt borð og stólar og allt það, heldur nám í gegnum leik sem skiptir auðvitað gríðarlegu máli. Við eigum að rifja þetta upp því að þó þetta séu mjúk mál eru þetta kannski mál sem hafa miklu meiri áhrif á líf okkar en sumt annað sem við eyðum meiri tíma í að ræða.

Ég fagna afgreiðslu hv. allsherjar- og menntamálanefndar, þeirri samstöðu sem þar hefur skapast og fagna þeim skilningi sem uppi er um að við ætlum að ræða saman og reyna að komast að sameiginlegri framtíðarsýn um fæðingarorlof og um lengd þess, um samstarf við sveitarfélögin um að tryggja leikskólarými fyrir börn og að við getum náð einhvern veginn saman um þetta. Þetta er svo stórt mál fyrir allar kynslóðir í landinu, leyfi ég mér að segja, fyrir þær kynslóðir barna sem eru að koma í heiminn, fyrir kynslóðir foreldra og fyrir samfélagið allt. Ég vil því ljúka ræðu minni á þessum jákvæðu nótum.