146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

stefna um þróun bankakerfisins.

[10:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Í Kjarnanum er vitnað í pistil hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem hæstv. ráðherra birti á síðu flokksins sem hann veitir forystu. Þar segir hæstv. ráðherra um sérstöku umræðuna sem við áttum um fjármálakerfið á dögunum, með leyfi forseta:

„Ég er ekki viss um hvort þingmenn áttuðu sig almennt á því að ríkið getur sett lagaramma um bankakerfið óháð því hvort það á hlut í bönkunum.“

Við erum sem sagt að mati hæstv. ráðherra ekki bara nánast siðlaus og stjórnlaus, ef við höfum ekki meirihlutastjórn til þess að segja okkur fyrir verkum, heldur erum við líka svolítið vitlaus. En látum það liggja á milli hluta.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér um það að æskilegt sé að skýr stefna stjórnvalda liggi fyrir um þróun bankakerfisins áður en bankar eru seldir úr ríkiseigu. Hlýtur það ekki að vera auðveldara fyrir ríkið að koma stefnu sinni til leiðar þegar bankar eru í meirihlutaeigu þess? Þannig verður t.d. auðveldara að aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi.

Það hlýtur að teljast eðlilegt, frú forseti, að þingið móti sér stefnu um hvernig það vill sjá framtíðarskipan fjármálakerfisins áður en það er selt í hendur einkaaðila. Stefnumörkunin í svona mikilvægu máli verður að þola skoðun og fara fram fyrir opnum tjöldum. Ég óttast að nú sé verið að endurtaka sömu mistök og við seinustu einkavæðingu þegar koma átti bönkunum úr ríkiseigu með hraði í nafni frjálshyggju. Sér hæstv. ráðherra engan annmarka á því að selja bankana fyrst og setja síðan stefnuna og lagarammann? Liggur svona mikið á að selja bankana að ekki megi gefa tíma til vandaðrar stefnumörkunar?