146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

stefna um þróun bankakerfisins.

[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Ég vil ítreka það sem ég sagði við fyrri umræður um þessi bankamál að ég tel það einmitt mjög mikilvægt að þingið ræði það með hvaða hætti best er að haga bankamálum hér á landi í framtíðinni. Það eru ýmis álitamál sem þar koma upp, eins og hv. þingmaður nefndi, t.d. hvernig eigi að huga að sambandi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi t.d. eignarhlut í bönkunum, hve stóran eignarhlut menn mættu eiga. Ég get alveg sagt það að ég deili áhyggjum margra hv. þingmanna um það að hér gætu orðið mistök ef við vöndum okkur ekki við sölu á hlut bankanna og vöndum okkur ekki við löggjöfina almennt um bankamál. Ég hef unnið að því núna að endurskipa starfshóp sem hefur verið að vinna að skýrslu um bankamál. Ég mun leggja þá skýrslu fyrir Alþingi nú í vor. Ég vænti þess að starfshópurinn ljúki störfum sínum í maí. Þar mun m.a. vera komið inn á þessi afar mikilvægu mál sem hv. þingmaður nefndi.

Svo ég svari þeirri spurningu hvort það liggi virkilega svona mikið á þá hef ég sagt nei, það liggur ekkert á að selja bankana. Ég held að betra sé að við gerum þetta í góðri sátt. Ef það tekur tíu ár að selja bankana verður bara svo að vera. Ég hygg að það sé miklu mikilvægara að við leysum þau mál hér saman heldur en að menn ani að neinu í þeim efnum.