146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fríverslunarsamningar.

[15:33]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni og ráðherra fyrir þessa umræðu. Íslendingar hafa lifað misjafna tíma í viðskiptum sínum við önnur lönd. Á fyrri öldum supum við ýmsa fjöruna við aðstæður sem hnípin þjóð réð ekki við. Öldin er nú önnur, enn erum við þó í nokkrum fjötrum þar sem ríkja hindranir í viðskiptum innan lands. Væri það ekki nærtækt fyrir málshefjanda að tala fyrir fríverslun eða bættum viðskiptaháttum hér heima í stað þess að verja með kjafti og klóm áratugalanga og stöðuga sérhagsmunavörslu Sjálfstæðisflokksins, t.d. í landbúnaðarmálum? Þar á bæ ríkir forpokuð stefna og jafnvel umræðubann um tiltekin frelsisákvæði í samskiptum við aðrar Evrópuþjóðir sem leitt hefur til þess að hluti flokksmanna er nú á vergangi í tilvistarkreppu í öðru og nýju flokksbroti.

Enginn flokkur hefur staðið fyrir annarri eins byltingu í viðskiptum og fríverslun við önnur lönd og Alþýðuflokkurinn, forveri Samfylkingarinnar, og stuðlað með því að bættum hag almennings. Stærstu skrefin voru auðvitað stigin með aðild að EFTA árið 1971. Annað risaverkefni sem jafnaðarmenn áttu frumkvæði að og leiddu í milliríkjaviðskiptum var EES-samningurinn sem gekk í gildi árið 1994. Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið eru helstu grunnstoðir utanríkisverslunar Íslendinga. Með aðildinni að EES njóta landsmenn að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og um 30 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Gæta þarf að hagsmunum okkar til lengri framtíðar og vinna í anda þeirrar stefnu sem Samfylkingin markaði um gerð fríverslunarsamninga við fleiri lönd, vaxandi lönd. Dæmi um það er samningurinn við Kína, verk jafnaðarmanna. Full þátttaka í sameiginlegum markaði Evrópuríkja er lykilatriði til að halda framsæknum fyrirtækjum í landinu, fjölga störfum, skapa sóknarfæri fyrir íslenska frumkvöðla og skapandi greinar.

Virk þátttaka fæli í sér mikil sóknarfæri á sviði fullvinnslu sem gæti líka fjölgað störfum og skapað mikil verðmæti í sjávarbyggðum. (Forseti hringir.) Tollfrelsi myndi einnig skapa mikla möguleika fyrir útflutning á landbúnaðarafurðum og styrkja greinar eins og sauðfjárrækt. Í baráttumálum jafnaðarmanna er fólgið hreyfiafl til framfara og hagsmunir almennings eru stöðugt hafðir að leiðarljósi.