151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Nei, það er ekki staðan, eins og hv. þingmaður hlýtur að átta sig á. Eftir því sem umræðunni hefur undið fram er það þannig að auknar bólusetningar hafa áhrif á afléttingaráætlanir og áform stjórnvalda að því er varðar sóttvarnaráðstafanir.

Af því að hv. þingmaður er að hvetja mig til dáða að eiga samtal við þjóðina skal ég ekki víkjast undan því. Ég hef viljað gera það í þessum faraldri um leið og ég hef viljað leggja áherslu á að við hlýddum á ráð okkar besta fólks, okkar bestu vísindamanna, að því er varðar glímuna við faraldurinn sjálfan.

Svo verð ég að segja, virðulegur forseti, að ég er afar stolt af því að eiga sæti í ríkisstjórn sem hefur tekið með eins myndarlegum hætti og raun ber vitni á efnahagslegum áhrifum faraldursins.