151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[13:38]
Horfa

Frsm. velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. Jóns Gunnarssonar vil ég taka mjög skýrt fram að það var gríðarlega mikill vilji hjá nefndinni, svo ég tali nú ekki um hjá ráðherranum og ráðuneytinu, að koma til móts við félögin sem hér eru nefnd, félög sem einungis starfa til almannaheilla og eru ekki hagnaðardrifin. Þau höfðu sótt um að komast undir þessi lög, en lögin byggja á ákveðinni tilskipan sem heilbrigðisráðherra gaf út um lokun og bann við íþróttaæfingum og keppnum. Á því byggjast þessi lög að mestu leyti. Ég er auðvitað ekki lögfræðingur en nefndin gerði allt sem hún gat til að taka þessi félög undir þann hatt. Margar leiðir voru skoðaðar og síðast í gærkvöldi var verið að reyna að bæta nefndarálitið og gera breytingartillögur. Það gekk ekki upp, einfaldlega vegna þess að þetta á ekki við samkvæmt því sem okkar besta fólk, bæði lögfræðingar á nefndasviði og í ráðuneytinu, hefur athugað. Eins hefur löglært fólk í nefndinni fjallað um þessi mál.

Þess vegna lagði nefndin sig ríkulega fram við að finna aðrar leiðir fyrir þessi félög og hópa, Ungmennafélag Íslands, skátana, KFUM og KFUK og aðra slíka, þar má einnig nefna áhugaleikhús og fleira, ég man það auðvitað ekki allt með svo stuttum fyrirvara. Mál nr. 300, sem fjallar um atvinnuleysistryggingar og hefur verið hér í þinginu, tekur fyrir þessi félög og starfsemi þeirra og á að bjarga því sem bjargað verður gagnvart þeim. (Forseti hringir.) Það var ríkur vilji til þess að leysa málið og við gerðum allt sem við gátum fyrir þau, en þetta er niðurstaðan.