151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[17:02]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrir hönd Samfylkingarinnar senda íbúum Seyðisfjarðar hlýjar kveðjur á erfiðum tíma. Ég treysti því stjórnvöld styðji við íbúa þess svæðis með myndarlegum hætti ef þörf krefur, sem virðist því miður vera.

Varðandi fjáraukann langar mig að spyrja hv. þingmann um hinn svokallaða Covid-kostnað. Búið er að segja núna í heilt ár að allur Covid-kostnaður stofnana verði bættur. Við fáum þær upplýsingar í fjárlaganefndinni að svo verði gert varðandi heilbrigðisstofnanir. Ég treysti því að það verði einfaldlega gert, að það sé rétt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað með Covid-kostnað sem lenti á hjúkrunarheimilum, öldrunarstofnunum? Þetta er síðasta fjárauki ársins, sá fimmti í röðinni. Er alveg tryggt að sá kostnaður sem lenti á hjúkrunarheimilum vegna Covid verði bættur? Sömuleiðis varðandi löggæsluna. Er hún bætt varðandi þann aukakostnað sem hún varð fyrir vegna Covid? Og hvað með einstaka aðila eins og SÁÁ, Geðhjálp og aðra þar sem álag hefur aukist vegna Covid?

Þá langar mig einnig að spyrja aðeins varðandi sveitarfélögin. Við sjáum á fjáraukanum að sveitarfélögin fá rúma 2 milljarða til að veita þeim fjárhagslega viðspyrnu. Ég velti fyrir mér, í ljósi þess að sveitarfélögin hafa sagt okkur í fjárlaganefnd að þau vanti 50 milljarða á þessu ári og því næsta: Hvernig stendur á því að við tökum ekki betur utan um sveitarfélögin? Ég veit að hv. þingmaður er mjög meðvitaður um gildi sveitarfélaga sem mikilvæga hlekks í nærþjónustunni og mörg sveitarfélög standa virkilega illa vegna faraldursins. Þess vegna finnst mér 2 milljarðar í þessum fjárauka vera dropi í hafið í ljósi þeirra talna sem við höfum heyrt frá sveitarfélögunum sjálfum.