151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[17:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna, en hann fer mikinn gjarnan. Mér finnst umfjöllunin kannski ekki alltaf sanngjörn því að það er dálítið látið eins og ekkert hafi verið gert og hv. þingmaður veit að það hefur vel verið gert þótt okkur geti alltaf greint á um hvort gera megi betur víða. Hv. þingmaður þekkir það að við fáum inn til okkar í fjárlaganefnd alls konar beiðnir og við könnum eitt og annað, alla vega höfum við gert það í meiri hlutanum, þegar við erum að velta fyrir okkur hinum ýmsa stuðningi og sérstaklega núna með tilliti til ástandsins af því að við vitum að það er kannski ekki víða hægt að leita. Þess vegna berum við mikla ábyrgð.

Ég vil halda því til haga í sambandi við 25 millj. kr. framlag sem hér er gerð tillaga um til að efla stuðning við aðlögun fanga út í samfélagið að lokinni afplánun að það er, eins og kom fram á fundi okkar, samkvæmt lögum um opinber fjármál. Við leggjum á það áherslu að þeir aðilar sem hér eru tíndir til sérstaklega hafa allir verið mikilvægur hlekkur í farsælli aðlögun fanga aftur í samfélagið, þar er Afstaða líka og hún er nefnd hér. Sannarlega óskaði Afstaða eftir miklu meiri peningum og hefði viljað fá miklu meiri peninga en hér eru undir eða eiginlega þá alla. En það er kannski ekki algerlega okkar að ákveða að einn aðili sé bestur til þess að gera alla þessa hluti. En ég tek undir það að starf þeirra er mikilvægt eins og starf hinna og við bendum á að dómsmálaráðherra, í samstarfi við félagsmálaráðherra, gerir samninga (Forseti hringir.) við þessi stuðningsúrræði. Ég tel það vera afskaplega mikilvægt og minni á (Forseti hringir.) að það eru jú að koma peningar úr félagsmálaráðuneytinu nú þegar, m.a. til Afstöðu, þannig að það eru fordæmi fyrir því að þeir geti gert samninga.