152. löggjafarþing — 42. fundur,  24. feb. 2022.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

74. mál
[14:29]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Húsnæðiskerfið eins og það er í dag er ansi brotið. Það er brotið fyrir þá sem eru að kaupa í fyrsta sinn. Það er brotið fyrir þá sem eru að reyna að komast aftur í eigið húsnæði eftir að hafa misst húsnæði. Það þarf að sjálfsögðu að gera breytingar eins og þær sem lagðar eru til í þessu frumvarpi, að sérstaklega þeir sem misst húsnæði fái tækifæri til að koma sér aftur inn í kerfið. En eins og hv. þingmaður benti á rétt áðan þá virka hlutdeildarlánin ekki, sem er eitt af því sem átti að vera fyrir þá sem ættu erfitt með að kaupa sér húsnæði og væru að kaupa í fyrsta sinn. Þau virka alla vega ekki á höfuðborgarsvæðinu. Það er hreinlega skortur á lausnum fyrir fólk sem vill komast af leigumarkaðnum. Við hljótum að geta fundið leiðir sem virka. Það er búið að prófa hlutdeildarlán, þau virka ekki. Það er búið að prófa ýmislegt, það virkar ekki. Við hljótum að geta fundið aðrar leiðir sem breyta kannski einhverju af því sem virkar. Ef það er vilji til þess þá geta stjórnvöld fundið leiðir en til þess þurfa þau að vakna upp og hlusta á það fólk sem er að þjást á leigumarkaðnum. Ég vona að sem flestir sem eru á leigumarkaði og eru að reyna að kaupa sér sitt fyrsta húsnæði, eru t.d. að reyna að flytja út frá pabba og mömmu, láti ríkisstjórnina að heyra í sér.

Ég er ekkert endilega viss um að það að nota séreignarsparnað sé sniðug lausn vegna þess að við megum ekki gleyma fyrir hvað séreignarsparnaðurinn er. Hann er ætlaður til þess að við nýtum hann þegar við verðum aðeins eldri og förum á ellilaun. Þannig er hann hugsaður, sem viðbót við þann lífeyri sem við fáum. Það er nú þannig að ef þú tekur milljón út þegar þú ert 22 ára, 23 ára, út úr slíkum sparnaði þá tapar þú tugum milljóna í vöxtum, vaxtavöxtum og verðbólgu og öllu sem hækkar séreignarsparnaðinn þangað til þú ert orðinn 67 ára. Þá erum við að vissu leyti að bíta af okkur fótinn til þess að geta keypt okkur húsnæði. Jú, við verðum að vona að húsnæðið sem við búum í hækki, en við þurfum enn þá húsnæði þegar við erum orðin gömul. Það er ein lausn að nota séreignarsparnað og meðan við höfum enga aðra þá ættum við að vera með hana. En við ættum að vera tilbúin í að hugsa upp leiðir sem bíta ekki fótinn af okkur í ellinni en gefa okkur kost á að búa í eigin húsnæði. Þar þurfum við að hugsa um önnur módel. Er svokallað búsetumódel að virka eða einhver önnur félagsleg módel? Við þurfum bara að vera með opinn huga og vera tilbúin að gera þetta. Ef ríkið er ekki til þá verðum við bara að líta til bankanna og félagasamtaka og finna leiðir. Við lifum við ákveðna fákeppni hér á landi. Við erum bara með þrjá banka. Þeir geta stýrt þessu eins og þeir vilja. Það er orðið auðveldara núna að opna fyrir fleiri banka, miklu auðveldara að búa til fleiri banka í dag. Kannski verðum við bara að gera eins og afi minn heitinn gerði þegar olíuverð fór upp úr öllu valdi, hann stofnaði olíufélag og flutti einn farm til Íslands og restin af olíufélögunum lækkaði olíuverðið. Stundum þarf maður bara að hugsa út fyrir boxið.

Ég hef fulla trú á því að ef fólk lætur heyra í sér og lætur stjórnvöld vita að það sé ekki ásættanlegt að vera fast á þeim leigumarkaði sem er í dag þá hljóti stjórnvöld að hlusta. Þau hljóta að hlusta vegna þess að þau hugsa alltaf um næstu kosningar. Ef þau sem eru á leigumarkaði og þau sem vilja flytja út frá pabba og mömmu, þau sem vilja komast í eigin íbúð, fá engar lausnir frá ríkisstjórninni þá verður hún ekki kosin aftur. Það er það eina sem þau hlusta á. Látum heyra í okkur.