Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir framsöguna og gott samstarf nú í haust um frumvarp til fjárlaga. Ég vil taka undir þá umræðu sem átti sér stað í andsvörum hér áðan um þessar breytingartillögur meiri hlutans og það að fjármála- og efnahagsráðuneytið eða ríkisstjórnin hafi komið fram með fjölmargar tillögur til nefndarinnar til umfjöllunnar núna undir lokin. Eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans er þar í fyrsta lagi byggt á nýjustu þjóðhagsspá Hagstofu Íslands, nýjustu gögnum um þróun skattstofna fram til október og nýjum áformum um tekjuhlið fjárlaga. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við förum í þá vinnu og óskum eftir svörum við því hvernig stóð á því að þetta kom svona seint, fáum frekari rök fyrir því, vegna þess að mér finnst þetta ekki nógu góð vinnubrögð eins og hér hefur komið fram og við þurfum sem nefnd að gera meiri kröfu til ráðuneytisins. Það átti sér ekkert stórkostlegt stað í íslensku samfélagi frá því að fjárlagafrumvarpið var fyrst lagt fram og þangað til breytingartillögurnar komu síðan fram. Þetta sýndi bara að upphaflega frumvarpið var hálfkarað.

Mig langar að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvers vegna verið sé að koma með tillögur stjórnarandstöðunnar, um hækkun frítekjumarks, ári seinna. Frítekjumarkið hefur staðið óhaggað í 14 ár og þessi ríkisstjórn hefur á ári hverju framlengt bráðabirgðaákvæði þess efnis. Þetta er 1 milljarður sem er hér undir sem er 1% af heildarútgjöldum ríkissjóðs.

Annað: Í fyrra lagði stjórnarandstaðan fram tillögu til að styrkja rekstrargrunn sjúkrahúsanna um 2 milljarða. Meiri hluti fjárlaganefndar kemur nú með sams konar tillögu. Hvers vegna var ekki einfaldlega hægt að samþykkja þá tillögu stjórnarandstöðunnar í fyrra? Tók það ríkisstjórnarflokkana kannski eitt ár að átta sig á rekstrarvandanum? (Forseti hringir.) Mér líður eins og einhverjar stórkostlegar uppgötvanir hafi átt sér stað núna á þessum 12 mánuðum.