Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:55]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni þessa yfirferð en langar kannski sérstaklega að byrja á þessum upphafspunkti hans, sem kom líka fram í andsvörum við nokkra þingmenn hér fyrr í dag, að það er ekki bara eins og ríkisstjórnin sé að fljúga blindflug þegar kemur að efnahagsmálum og fjárlagafrumvarpinu og stóru myndinni, fljúgi blindflug án nokkurra tækja til að hjálpa sér, heldur ætlist hún til þess að við hin séum líka til í það. Hún leggur fram fjárlagafrumvarp í september og breytir því síðan í veigamiklum atriðum þegar desember er löngu byrjaður, þegar við þurfum að fara að klára þetta. Þetta er tveimur vikum eftir að við áttum að fá í hendurnar tillögur fyrir 2. umr. fjárlaga. Eins og hv. þingmaður segir þá snýr þetta ekki bara að þinginu sjálfu heldur öllum umsagnaraðilum sem komu til okkar með sitt álit á fjárlagafrumvarpi sem var síðan kannski bara ekkert alvörufrumvarp. Mig langar að taka dæmi um einn af umsagnaraðilum sem mér finnst nú vera einn af þeim mikilvægari. Félagið Feminísk fjármál hefur tekið að sér að safna saman sérfræðiþekkingu eða greiningu á áhrifum frumvarpa á kynjajafnrétti og skilar t.d. inn þeirri ábendingu að það sé farið að gera dálítið meira af þessu í frumvarpinu heldur en hefur verið oft áður en ráðuneytin séu ekki enn þá búin að fatta það að þessi greining snúist ekki bara um að sýna stöðuna heldur eigi að bregðast við stöðunni þegar búið er að sýna hana. Hefur eitthvað verið greint varðandi t.d. þær viðbætur sem er verið að setja inn? Hér sýna Feminísk fjármál að ríkisstjórnin hefur ekki gert það. En hvað er meiri hlutinn að gera með sínar tillögur? Er meiri hlutinn að gera vont verra?