154. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú liggja niðurstöður PISA-könnunar OECD fyrir og árangur íslenskra nemenda í lesskilningi og læsi á náttúrugreinum og stærðfræði er verstur á Norðurlöndunum. Það sem er átakanlegast er að nemendur sem eiga foreldra í lakari félags- og efnahagslegri stöðu koma sýnilega verr út úr könnuninni. Þetta eru skýr teikn um aukningu í ójöfnuði í námsárangri á Íslandi yfir tíma. Þetta er auðvitað ekkert annað en óásættanleg niðurstaða. Við vitum að afleiðingarnar af því að búa við félagslegan ójöfnuð munu á endanum birtist annars staðar í samfélaginu og hafa lykilþýðingu fyrir tækifæri til menntunar og möguleika á því að brjótast út úr fátækt á fullorðinsárum. Við jafnaðarmenn getum ekki sætt okkur við það að tækifæri barna verði í enn meira mæli háð þeim aðstæðum sem þau fæðast inn í og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að berjast gegn lagskiptu samfélagi.

Virðulegi forseti. Þegar við greinum niðurstöður PISA ætlum við ekkert að byrja á því að skella skuldinni á íslenska kennarastétt og segja henni að hlaupa hraðar. Það hefur verið gert. Við höfum lengt kennaranámið og við eigum þaulmenntað og hæfileikaríkt fagfólk, fagfólk sem hefur ekki nauðsynleg tæki og tól til að grípa stækkandi samfélag sem býður upp á sífellt flóknari áskoranir. Við ætlum heldur ekki að skella skuldinni á sveitarfélögin sem eiga nóg með að takast á við vanfjármagnaða málaflokka.

Virðulegur forseti. Ekki bara er þetta verkefni mennta- og barnamálaráðherra að takast á við heldur er kominn tími til þess að fjármálaráðuneytið setji menntun barna og félagslegan jöfnuð í fyrsta sæti, því þannig vinna jafnaðarmenn.