135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:22]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér eru greidd atkvæði um heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur komið fram að rekstrarhalli heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu frá fyrri árum er um 400 millj. kr. Það hefur líka komið fram að stjórnendur heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu telja að a.m.k. 500 millj. þurfi til að geta staðið undir óbreyttum rekstri á næsta ári. Ég velti fyrir mér hvort þetta séu kosningaloforð Samfylkingarinnar, að fella hér tillögu um nauðsynlega fjárveitingu til að hægt sé að halda uppi eðlilegri heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Ég efast um að þeir sem nú sitja hér í sal hafi í kosningaundirbúningnum og í kosningabaráttunni lofað (Forseti hringir.) íbúum á þessu svæði að það ætti að svelta heilbrigðisþjónustuna (Forseti hringir.) til markaðsvæðingar og einkavæðingar. Ég segi já við þessari fjárveitingu, herra forseti.