135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

kjararáð.

237. mál
[14:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Opinberir starfsmenn fela ekki lífeyrisréttindi sín, það er alrangt. (Gripið fram í.) En það stórfenglega við tölu hv. þm. Péturs H. Blöndals er sú skýring að hann hafi stutt lífeyrisfrumvarp þingmanna og ráðherra vegna þess að það hafi verið svo slæmt. Það hafi verið ávísun á svo mikla stöðnun (PHB: Ég sagði stöðlun.) — það hafi verið ávísun á stöðlun, hafi verið svo gallað (PHB: Nei, nei.) — ekki gallað. (PHB: … réttindi samræmd.) Jæja, ég hef þá misskilið hv. þingmann. En ef hann hefur verið andvígur frumvarpinu yfir höfuð hefði að mínum dómi verið rökréttara að hann hefði lagst gegn því eins og ég og fleiri gerðum.

Hvað varðar aðra þætti — nú er ég búinn að gleyma því hvert var hitt atriðið sem hv. þingmaður vék að með (PHB: Með laun þingmanna … opinberra starfsmanna.) Já, laun opinberra starfsmanna. Þau eru ekkert dulin. Allir nýráðnir starfsmenn hjá hinu opinbera, hvort sem er hjá ríki eða sveitarfélögum, eru í lífeyrissjóði þar sem greitt er 15,5% iðgjald af heildartekjum fólks. Gamla kerfið var öðruvísi en þá er að mörgu að hyggja vegna þess að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins stóð á sínum tíma að verulegu leyti undir almannatryggingakerfinu og úr því gegnumstreymiskerfi, sem var að hluta til, tóku opinberir aðilar, bæði sveitarfélög og ríki, umtalsverðar upphæðir iðulega án vaxta þannig að um var að ræða fjármuni sem runnu inn í samfélagsþjónustuna og er nokkuð sem oft gleymist í þessari umræðu.

Varðandi launakjör þingmanna tel ég að það eigi allt að vera hreint og beint og uppi á borðum. Ef við gætum sameinast um tillögur í þeim efnum yrði ég fyrstur til að samþykkja þær en ég held að við náum seint saman í lífeyrismálunum.