138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi Icesave í framhjáhlaupi af því að nefndin ætlar ekki að reikna með því. (GuðbH: Til að hræða?) Nei, það er ekki til að hræða eitt né neitt. Ég hef margoft sagt að það eru ákveðnar líkur á því að við getum borgað Icesave. Ég hugsa að það séu um helmingslíkur á því að íslenska þjóðin geti borgað Icesave en það eru einnig ákveðnar líkur á því að hún geti ekki borgað Icesave og í þeirri stöðu vil ég ekki lenda, alveg sama hvað gengur og gerist. Þess vegna bað ég um í hv. efnahags- og skattanefnd að fá áhættugreiningu á þessum vanda. Hvað eru miklar líkur á því að íslenska þjóðin geti ekki greitt? Það eru ákveðnar líkur á því að hún geti greitt og það er allt í fína lagi. (Gripið fram í: Hvað sættir þú þig við?) Ég sætti mig við 3%. Ef það væru 3% líkur á því að þjóðin gæti ekki greitt mundi ég samþykkja Icesave en ég hef grun um að það séu töluvert meiri líkur á því. Það kemur þó væntanlega í ljós þegar þetta verður kannað í efnahags- og skattanefnd.

Það sem ég talaði um með Hörpu og ógreiddar skuldbindingar, menn eru alltaf að leika þennan leik. Ég vil að hv. fjárlaganefnd taki skuldbindinguna vegna tónlistarhússins og segi við sjálfa sig: Hvað getum við hætt við án þess að lenda í skaðabótaskyldu og hvað getum við ekki hætt við? Það sem við getum ekki hætt við verðum við að færa sem skuldbindingu, annaðhvort sem lán eða annars lags skuldbindingu í ríkissjóð, þannig að við séum ekki að plata okkur sjálf og skattgreiðendur framtíðarinnar með þessum hætti.

Íbúðalánasjóður er einmitt með 1.000 milljarða í rekstrarkostnað og ætlar að auka hann um 10,6% á næsta ári. Mér finnst bara sjálfgefið að Alþingi ákveði að þetta skuli vera óbreytt eða jafnvel lækkað eins og útgjöld hjá öðrum ríkisfyrirtækjum og stofnunum.