138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að enn hljómuðu orð hv. þingmanns sem englasöngur í mínum eyrum því að ég er alveg sama sinnis með tónlistarhúsið, mér finnst undarlegt að skera niður hjá öryrkjum og fötluðum og úti um allt kerfið, í heilbrigðisþjónustunni og hvar sem er, á sama tíma og menn gusa út milljörðum og tugum milljarða í tónlistarhúsið. Og það kemur ekki einu sinni fram í fjárlögum. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður muni krefjast þess að það komi fram í fjárlögunum.

Þá kemur hin spurningin með agann, með Icesave, sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður samþykki ekki vegna þess að þar er enn meira agaleysi. Menn ætla ekki einu sinni að líta á dæmið. Það hefur komið fram í hv. efnahags- og skattanefnd að hægt sé að gera áhættugreiningu á því dæmi á tveim vikum og mér sýnist að meiri hlutinn ætli ekkert að gera það. Hann ætlar sem sagt að samþykkja þetta blindandi og þá kemur spurningin um agann. Ég reikna með því að hv. þingmaður geti ekki samþykkt Icesave ef hann veit ekki neitt um dæmið.