139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

störf þingsins.

[14:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir hennar svör og einnig þau orð sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir lét falla varðandi heilsugæsluna og heimilislækna.

Eins og kom fram í orðum hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar horfum við fram á að það verði niðurskurður á þessu ári, næsta ári og þarnæsta ári í heilbrigðiskerfinu eins og annars staðar. Ég tel því mikilvægt að við séum ekki föst innan kassans heldur tilbúin til að hugsa út fyrir hann. Þá þurfum við að vera tilbúin að skoða það jafnvel að fjölga heilbrigðisstéttum eins og ég nefndi, skoða hvernig aðrar þjóðir hafa farið að og brugðist við skorti á heimilislæknum vegna landfræðilegrar aðstöðu eða vegna þess að fólk hefur valið að fara í aðrar stéttir.

Við þurfum líka að skoða það sem hefur töluvert verið rætt hér á þinginu, sérstaklega að frumkvæði hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, að innleiða valfrjálst tilvísunarkerfi. Ég held að við þurfum að horfa sérstaklega til þess hvernig þeir hafa gert þetta í Danmörku þar sem um 98% af sjúklingum, held ég, velja að vera innan þess kerfis að fara fyrst til heilsugæslunnar og fá tilvísun ef þeir þurfa að leita til sérfræðings. Það fer þá fram ákveðið faglegt mat á þörf viðkomandi sjúklings. Við megum ekki gleyma því að við erum að borga núna um 5,2 milljarða til sérfræðinga og það hefur gengið mjög erfiðlega að fá þá til að hnika kostnaðarþátttöku sinni í heilbrigðiskerfinu — helsta ástæðan fyrir því, að mér skilst, að Sjúkratryggingastofnun er nú að fara mjög illilega fram úr sínum fjárlögum.

Ég mundi því vilja leggja fram þá tillögu, í ljósi þeirrar umræðu sem fór fram um aukið samstarf og bjartsýni, að komið verði á samstarfi á milli menntamálanefndar og heilbrigðisnefndar um það hvernig við getum tryggt nýja (Forseti hringir.) menntun innan heilbrigðiskerfisins og síðan líka (Forseti hringir.) innleiðingu þá á nýjum kerfum sem geta verið hagkvæmari og tryggt það að lífslíkur Íslendinga verði áfram þær bestu í heimi.