140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[14:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að byrja á því að andmæla þessum lýsingum á staðgöngumæðrum sem hv. þingmaður ber hér á borð og segir þó og viðurkennir að hún hafi ekki lesið rannsóknirnar. Ég ætla að lesa upp úr grein þar sem þetta er dregið saman, með leyfi forseta:

„Flestir ef ekki allir rannsakendur“ — þá þeir sem rannsaka staðgöngumæðrun — „töldu sig geta sýnt fram á að staðgöngumæður væru úr lægri stéttum, beittar þrýstingi og jafnvel kúgun, upplifðu mikinn missi við að afhenda barnið foreldrum o.s.frv. Þrátt fyrir einbeittan vilja rannsakenda studdi engin af rannsóknunum þessar né aðrar neikvæðar kenningar nema síður sé.“

Höfum líka svolitla trú á mannfólkinu. Af hverju þarf að setja hlutina þannig fram að ef kona er tilbúin til þess af velgjörð — og gleymum því ekki að við erum alltaf að tala um velgjörð; systir, vinkona, einhver nákominn — að ganga með barn fyrir konu sem á þess ekki kost að gera það sjálf sé það af annarlegum hvötum? Það er einfaldlega ekki þannig og allar rannsóknir styðja það. Ég hvet hv. þingmann til að skoða rannsóknirnar og kynna sér þær.

Minnst var á að dómskerfið í Bretlandi væri uppfullt af vandamálum tengdum þessu. Ég bið hv. þingmann um að sýna mér þær rannsóknir. Það er einmitt þvert á móti. Í þeim rannsóknum sem ég hef kynnt mér hefur þetta gengið vel í Bretlandi. Þau álitamál sem upp hafa komið hafa verið leyst. Það sem meira er: Þvert á það sem oft er haldið fram, um að við byrjum á að hafa stífar reglur og rýmkum þær, (Forseti hringir.) þá er þróunin í Bretlandi öfug, reglurnar voru kannski frjálsari hér áður en hafa verið gerðar stífari (Forseti hringir.) til að hægt sé að fylgjast betur með þessu öllu saman.