143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[19:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, tekjuskattur einstaklinga, virðisaukaskattur, launatengd gjöld og skattar á fjármálafyrirtæki.

Nefndin hefur tekið málið fyrir að nýju og meiri hlutinn hefur gert nokkrar breytingar sem ég mun gera grein fyrir í aðalatriðum, en álit nefndarinnar má lesa á þskj. 447.

Fyrir 2. umr. var farið fram á það við nefndina að hún legði til að gildistími ákvæða til bráðabirgða í lögum um tekjuskatt yrði framlengdur um eitt ár. Umrædd ákvæði segja fyrir um vissan afslátt af tekjuskatti að fengnum eftirgjöfum skulda að uppfylltum vissum skilyrðum og að tilgreindu marki. Var beiðnin studd þeim rökum að skuldaúrvinnslu heimila og fyrirtækja í kjölfar efnahagshrunsins væri ekki að fullu lokið hjá fjármálafyrirtækjum, lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði. Meiri hlutinn fellst á að tilefni sé til að verða við beiðninni og leggur til breytingu því til samræmis.

Í lögum um tekjuskatt er kveðið á um útreikning vaxtabóta. Er gert ráð fyrir að vaxtabætur ákvarðist þannig að frá vaxtagjöldum, eins og þau eru skilgreind í lögunum, er dregin fjárhæð sem svarar til 6% tekjuskattsstofni viðkomandi. Í ákvæði til bráðabirgða XLI við sömu lög er kveðið á um að framangreint viðmiðunarhlutfall hámarks vaxtagjalda af skuldum skuli vera 7% við ákvörðun vaxtabóta á árunum 2011–2013 vegna tekna, eigna og skulda á árunum 2010–2012. Í 4. gr. frumvarpsins er bætt einu ári við þessi tímamörk.

Meiri hlutinn leggur til breytingu á framangreindu ákvæði þannig að vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta skerðist sem nemur 8,5% af tekjuskattsstofni í stað 8% á því tímabili sem ákvæðinu er ætlað að gilda.

Í 3. málslið 4. töluliðar og 5. töluliðar A-liðar 30. gr. tekjuskattslaga er kveðið á um heimild til þess að draga frá skattskyldum tekjum einstaklinga utan atvinnurekstrar og manna sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi allt að 4% af iðgjaldsstofni reglulegra iðgjalda séreignarlífeyrissparnaðar eða iðgjalda starfstengdra eftirlaunasjóða. Með lögum nr. 164 frá árinu 2011 var ákvæði til bráðabirgða XLIX bætt við lögin en þar er kveðið á um að þrátt fyrir framangreind ákvæði skuli heimilaður frádráttur, á árunum 2012–2014, vera allt að 2% af iðgjaldsstofninum.

Meiri hlutinn leggur til breytingu á ákvæði til bráðabirgða XLIX. Leggur hann til að gildistími þess verði styttur um sex mánuði og þannig verði á ný heimilt að draga allt að 4% af iðgjaldsstofni reglulegra iðgjalda séreignarlífeyrissparnaðar eða til starfstengdra eftirlaunasjóða eftir 1. júlí 2014 í stað 31. desember sama árs.

Til þess að tryggja að mögulegt verði að greiða atvinnuleitendum desemberuppbót í ár leggur meiri hlutinn til breytingu á 12. gr. frumvarpsins sem tryggir sjóðnum 240 millj. kr. af tekjum almenns tryggingagjalds vegna ársins 2014. Sérstaklega verður kveðið á um að ráðstöfunin gangi framar framlagi til Tryggingastofnunar ríkisins.

Að lokum, með hliðsjón af markmiðum laga um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og að teknu tilliti til markmiða frumvarpsins, leggur meiri hlutinn til að skatthlutfall sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki verði hækkað í 0,376%.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma á þskj. 447.

Undir álit meiri hlutans rita þann 19. desember hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, formaður og framsögumaður, Pétur H. Blöndal, Willum Þór Þórsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir.