145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

[15:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég get ekki samsinnt því sjónarmiði að við höfum ratað í vanda hér í krísunni sem verði leiddur til myntarinnar sem slíkrar. Óábyrg hegðun leiddi til þess að við lentum í vanda og gengi krónunnar endurspeglaði síðan hvernig þurfti að takast á við hann. Alveg eins mætti segja um Grikkina að lágir vextir evrunnar hafi gert þeim kleift að koma sér í vandræði og þess vegna sé þetta allt evrunni að kenna. Í grunninn var aðalvandamálið samt það að þeir eyddu um efni fram. Á Kýpur þurftu menn að setja gjaldeyrishöft á sameiginlegan gjaldmiðil fyrir Kýpverja, þessa sterku, sameiginlegu mynt.

Meginpunkturinn í þessu er sá fyrir mér að það er engin skemmri skírn til. Það er engin auðveld lausn. Menn komast aldrei fram hjá því að bera ábyrgð á sjálfum sér og haga sér skynsamlega og mér finnst við enn vera í miðri á við að breyta regluverki hér. Við höfum (Forseti hringir.) gert ýmislegt. Við erum vonandi að fara að ljúka lagasetningu um opinber fjármál. Við getum sótt fram af styrkleika á næstu árum, komið okkur í mjög öfundsverða stöðu og upp frá því finnst mér sjálfsagt að skoða alla kosti eins og kveðið var á um í þessari landsfundarályktun.