148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð á vinnumarkaði.

394. mál
[16:30]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrri þáttinn sem hv. þingmaður kemur inn á þá held ég sé ágætt að lesa 12. gr., um frávik vegna aldurs, með leyfi virðulegs forseta:

„Mismunandi meðferð vegna aldurs telst ekki brjóta gegn lögum þessum séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þ.m.t. stefnu í atvinnumálum eða öðrum markmiðum er varða vinnumarkað, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að.“

Ég held að sú athugasemd sem hv. þingmaður kemur inn á varðandi réttindi og skyldur, ég held að það sé alveg rétt að velta þessu fyrir sér og skoða þetta og nefndin geri það samhliða vinnslu þessa máls. En greinin er nokkuð skýr í þessu efni. Ég held að það sé tilefni til þess að skoða þá þætti sem hv. þingmaður kemur inn á og hvet nefndina til þess að gera það.

Varðandi seinni spurninguna um 14. gr. Ég verð að viðurkenna að ég náði ekki almennilega spurningunni af því að tíminn af alveg að verða búinn þannig að ég bið hv. þingmann að endurtaka hana þannig að ég geti svarað henni í seinna andsvari.