148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð á vinnumarkaði.

394. mál
[16:31]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Byrjum á seinni greininni, það er þetta með bann við afsali réttinda. Ég er sammála því að auðvitað eigum við að reyna að hafa lög og réttindalög þannig að það sé erfitt fyrir fólk að afsala sér réttindum eða það hreinlega megi það ekki. Þetta á við í mörgu, til að mynda því hvort menn geti hreinlega afsalað sér launum og þannig öðlast einhvers konar forskot eða nánast „keypt“ sér forskot.

Það sem ég bað hæstv. ráðherra að reifa var hvort þetta gæti orðið til þess að það yrðu settar hömlur á samningsstöðu eða samninga á milli manna þegar þeir væru að ráða sig til starfa með þessum hætti. Því lagaákvæðið er hvað þetta varðar býsna þétt, má segja.

Varðandi frávik vegna til aldurs þá kom ráðherra inn á það að greinin er býsna skýr, það er alveg rétt. Við erum hins vegar með að mínu mati í fjölmörgum lögum alls konar ómálefnalegar aldursvísanir sem ég hef raunar talað fyrir áður úr þessum ræðustól að við ættum að fara að hugsa um að losa okkur við. Við ættum frekar að notast við málefnalegri ástæður fyrir því að menn annaðhvort hætti að vinna störf eða fari úr einhverju tilteknu starfi, til að mynda eins og hæstv. ráðherra kom inn á þar sem krafist er sérstakra líkamsburða eða einhvers þess háttar til að vinna störf. Það gæti verið mun málefnalegra en það að menn hafi tikkað yfir eitt árið á lífsklukkunni.