148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð á vinnumarkaði.

394. mál
[16:33]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrri fyrirspurnina, eða raunar seinni fyrirspurnina, þá sé ég þetta ekki endilega gerast sem hv. þingmaður kemur inn á en það er alltaf mögulegt, með samþykki beggja aðila er hægt að gera ótrúlegustu hluti.

Varðandi fyrri fyrirspurnina þá tek ég undir með hv. þingmanni. Ég held að það sé alveg ástæða til að skoða sérstaklega þá þætti sem hv. þingmaður kemur inn á. Þær athugasemdir sem hafa komið við þetta mál eru m.a. að stjórnvöld þurfi að skoða sérstaklega 70 ára starfslokaregluna í starfsmannalögum, svo dæmi sé tekið, og hvort eigi að halda henni áfram eða setja málefnaleg rök fyrir reglunni sem helgast af lögmætu markmiði. Það er ástæða til þess að skoða þetta við vinnslu þessa máls. En það yrði þá að gerast með einhvers konar athugasemdum eða ábendingum þannig að sú vinna færi síðan af stað í framhaldinu þar sem hún heyrir í raun ekki undir þennan málaflokk eða þessi lög per se. En athugasemdirnar sem hv. þingmaður kemur með eru góðar og gildar og full ástæða til þess að nefndin fari ofan í þetta og beini ábendingum í framhaldinu til annarra nefnda eða ríkisvaldsins eða skoði þá aðrar breytingar samhliða þessu. En tillögur hvað það snertir verða ekki lagðar fram samhliða þessu máli, það er alveg ljóst.